Þetta er í annað sinn sem Landsnet efnir til slíks kynningarfundar og var samfélagslegt hlutverk og rekstrarumhverfi fyrirtækisins í brennidepli. Góður rómur var gerður að framsöguerindum stjórnarformanns, forstjóra og aðstoðarforstjóra Landsnets sem og veðurfræðingsins Einars Sveinbjörnssonar, en segja má að þátttaka hans í fundinum hafi að vissu marki endurspeglað það stóra hlutverk sem veður – eða öllu heldur óveður – lék í rekstri fyrirtækisins á liðnu ári.
Flutningsmagnið hefur ríflega tvöfaldast
Stjórnarformaðurinn, Geir A. Gunnlaugsson, fjallaði ítarlega um hlutverk Landsnets og þróun starfseminnar, þ.á.m. gjaldskrá og tekjumörk, frá stofnun fyrirtækisins árið 2005. Á þessum átta árum hafi flutningsmagn raforku í Landsnetskerfinu ríflega tvöfaldast; úr rúmlega 8.000 gígavattstundum (GWh) í tæplega 16.700 gígavattstundir, og nemi vöxturinn til stórnotenda um 160% á tímabilinu en um 6% til dreifiveitna. Rekstrarkostnaður Landsnets á hverja flutta gígavattstund hafi lækkað umtalsvert frá stofnun, eða um 45%. Þá hafi þróun gjaldskrár dreifiveitna verið undir almennri þróun verðlags og hlutur flutnings sem hlutfall af raforkuverði lækkað. Fram kom hjá stjórnarformanninum að gjaldskrá dreifiveitna hefur verið óbreytt frá 2009 - sem nemur 25% raunlækkun – og níu prósenta hækkun hafi verið hafnað af Orkustofnun, eftirlitsaðila Landsnets, og væri málið nú hjá kærunefnd raforkumála. Þá kom fram að grunnur tekjumarka stórnotenda væri nú í bandaríkjadölum, eins og gjaldskrá stórnotenda, en þróun hennar hafi einnig verið undir almennri þróun verðlags í bandaríkjadölum. Stjórnarformaðurinn sagði að ákvarðanir um um gjaldskrár hefðu verið teknar í fullu samræmi við lög og reglugerðir en vegna skuldar sem myndaðist við gengisfall krónunnar haustið 2008 hafi gjaldskrá stórnotenda verið lækkuð bæði árið 2010 og 2011 - og hækkuð á ný í lok síðasta árs þegar skuldin var greidd. Gjaldskrá stórnotenda væri nú komin á sama stig og var fyrir hrun en Geir sagðist eftir á að hyggja að hann mælti ekki með gjaldskrárbreytingu ef svona staða kæmi upp aftur. Nær væri að veita frekar afslátt frá gildandi gjaldskrá.
Að lokum áréttaði hann að auka þyrfti verðmætasköpun verulega á næstu áratugum ef tryggja eigi til framtíðar sambærileg lífskjör og í nágrannalöndum Íslands. Nýting orkulinda væri mikilvæg forsenda þess að slíkt takist og þar gegni áframhaldandi uppbygging flutningskerfis raforku mikilvægu hlutverki. Kynning
Öflugur rekstur og umhverfismál
Forstjóri Landsnets, Þórður Guðmundsson, fór yfir helstu tölur í rekstri Landsnets árið 2012 og sagði rekstur fyrirtækisins öflugan. Heildartekjurnar árið 2012 voru 12,3 milljarðar, heildareignir námu tæplega 75 milljörðum en langtímaskuldir voru 57,6 milljarðar króna. Eignfjárhlutfall var 17,7% í árslok 2012 og sagði forstjórinn að það yrði að aukast til að takast á við framtíðarfjárfestingar og tryggja getu fyrirtækisins til að mæta hugsanlegum áföllum eða efnahagslegum breytingum. Hagnaður Landsnets 2012 var 801 milljón króna og hefði orðið umtalsvert meiri ef ekki hefði komið til mikið tjón af völdum veðurs - samtals að upphæð um 390 milljónir króna.
Forstjórinn þakkaði starfsfólki Landsnets fyrir frábæra frammistöðu í óveðursköflum liðins árs sem og öðrum sem lögðu fyrirtækinu lið, s.s. björgunarsveitum, verktökum og bændum. Hann sagði jafnframt að óveðrin hefðu leitt í ljós mikilvægi þess að vera með fleiri starfsstöðvar Landsnets úti á landi. Starfsstöð á Akureyri væri næsta skrefið þó ákvörðun hefði ekki enn verið tekin og einnig þyrfti að auka og bæta tækjabúnað.
Veðrið olli því að mælt straumleysi á liðnu ári var það mesta sem verið hefur á síðastliðnum 10 árum, fyrst og fremst fyrir vestan, norðan og á Vesturlandi, og sagði forstjórinn að takast yrði á við þetta með styrkingu flutningskerfisins. Ýmislegt væri þegar í gangi í þeim efnum, flóra verkefna dreifðist um allt land og enginn landshluti væri þar undanskilinn þó Vestfirðir væru í forgangi, enda vandinn mestur þar.
Umhverfismál skipta æ meira máli og gerði forstjóri Landsnets ítarlega grein fyrir afstöðu fyrirtækisins varðandi val á háspennulínum eða jarðstrengjum við uppbyggingu flutningskerfisins. Þar væri enn beðið stefnumótunar stjórnvalda þó áfangaskýrsla liggi fyrir og ítrekaði forstjórinn að Landsnet gæti ekki eitt og sér ákveðið að jarðstrengjavæða flutningskerfið sökum þess mikla viðbótarkostnaðar sem því fylgdi. Nefndi hann sem dæmi að áætlað væri að fjárfesta fyrir 77 milljarða króna í flutningskerfinu á næstu 10 árum og ef jarðstrengjaleiðin yrði valin myndu þær framkvæmdir kosta um 221 milljarð. Hann vék einnig að stöðu mála við rafvæðingu loðnubræðslna þar sem sjö bræðslur eru að bætast við sem kaupendur um 90 MW af skerðanlegri raforku. Þetta er um 70% aukning í notkun á skerðanlegri orku og sagði forstjórinn að þetta væri ánægjuleg viðbót en nú er staðan þannig að flutningskerfið annar ekki núverandi skerðanlegum notendum og ekki verið að fjárfesta til að mæta slíkum flutningum. Ný gjaldskrá sé hins vegar í undirbúningi fyrir skerðanlegan flutning og þegar hún liggi fyrir verði farið að huga að styrkingum - en þangað til verði bræðslurnar að búa við skerðingu og nota olíu áfram til að mæta álagstoppum. Kynning
Núverandi kerfi stenst ekki eðlilegar öryggiskröfur
Hver er ávinningur trausts flutningskerfis var yfirskrift erindis Guðmundar Inga Ásmundssonar, aðstoðarforstjóra Landsnets. Hann sagði þróun kerfisins byggjast á þremur lykilþáttum; öryggi afhendingar, umhverfismálum og verðmætasköpun, og gerði grein fyrir framtíðarsýn Landsnets varðandi næstu kynslóð flutningskerfis. Það felur í sér umtalsverða styrkingu á bæði miðlæga og svæðisbundna flutningskerfinu og áréttaði hann að virkjanakostir í nýtignarflokki rammaáætlunar yrðu ekki tengdir í núverandi flutningskerfi nema til kæmi styrking meginflutningskerfisins. Hann brá jafnframt upp mynd af þeim svæðum þar sem takmarkaðir möguleikar eru í dag til að staðsetja meðalstór fyrirtæki vegna þess að ekki er hægt að auka álag á þeim svæðum um 10 MW, hvað þá meira, nema til komi styrking kerfisins. Þetta eru t.d. Reykjanes, Vestfirðir og Norðausturland þar sem byggðalínan er yfirlestuð. Einstaka undantekningar eru þó á þessu þar sem litlar virkjanir eru staðsettar.
Aðstoðarforstjórinn vék einnig að hugsanlegum alvarlegum áföllum og náttúruhamförum og sagði að núverandi flutningskerfi - með sinni takmörkuðu flutningsgetu og flöskuhálsum - stæðist ekki þær kröfur sem eðlilegt væri að gera í nútímasamfélagi til jafn mikilvægrar starfsemi. Þannig mætti í alvarlegri áföllum gera ráð fyrir umtalsverðri röskun á starfsemi fyrirtækja vegna skerðinga, keyrslu varastöðva og jafnvel skömmtunar til almennings!
Að lokum varpaði Guðmundir Ingi fram þeirri spurningu hvort það væri þess virði að byggja upp flutningskerfið og svaraði henni með því að gera stuttlega grein fyrir úttekt sem er verið að vinna fyrir Landsnet. þar kemur m.a. fram að þjóðhagslegur kostnaður vegna takmarkana í flutningskerfinu geti numið allt að 57 milljörðum króna næsta áratuginn, s.s. vegna flutningstapa, rekstrartruflana, yfirlestunar og takmarkana á orkuvinnslu. Á sama tíma eru fjárfestingar Landsnets vegna eflingar flutningskerfisins, s.s. með tvöföldun Suðurnesjalínu, Blöndulínu og fjölda aðgerða i svæðisbundnu kerfunum, áætlaðar um 77 milljarðar króna, eða 221 milljarður ef jarðstrengjaleið yrði ofan á í stefnumótun stjórnvalda. Kynning
Slydduísing minnkar ekki með hærra hitastigi
Tíðni aftaka slydduísingar minnkar ekki með hækkandi hitastigi en hún færist til, hækkar í landinu og verður frekar að haustlagi og þá aftur um vorið sagði Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur hjá Veðurvaktinni og ráðgjafi Landsnets, sem fjallaði um veðuráraun og flutningskerfi raforku á kynningarfundinum. Með hækkandi hitastigi aukist einnig úrkoma, sérstaklega aftakaúrkoma sem hafi í för með sér að áraun slydduísingar gæti orðið meiri!
Veðurvaktin sendir allskyns veðurupplýsingar til Landsnet, m.a. um ísingarhættu og hafa þær komið sér vel fyrir fyrirtækið í viðbragðsflýti, bæði rekstrarlega og eins úti á mörkinni. Kom fram hjá Einari að fyrsti áratugur aldarinnar hefði verið fremur hagfelldur rekstri raforkukerfa veðurfræðilega séð en öðru máli hefði gegnt með nýliðið ár, þegar þrjú illviðri - hvert með sínu móti - hefðu valdið umtalsverðum truflunum og tjóni. Lýsti hann aðstæðum í hverju tilviki fyrir sig og helstu veðurþáttum sem gætu haft áhrif á raforkukerfið, sem eru vindur, seltuáraun, ísing og eldingar auk utanaðkomandi þátta eins og krapa, vatns- og snjóflóða, öskufalls í eldgosum og sólstorma.
Um önnur áhrif hlýnandi veðurs á rekstur raforkukerfa nefni Einar einnig að hærri hiti leiddi einnig til aukins niðursláttar eldinga að sumarlagi en meiri óvissa væri með aukinn niðurslátt eldinga að vetrarlagi. Óvissa væri einnig með storma og tíðni óveðra enda væru aftakaatburðir tilviljanakenndir og réðust af öðru en langtímaleitni meðaltalanna.
Að framsöguerindum loknum voru umræður þar sem m.a. var komið inn á endingartíma háspennumastra, kostnað við jarðstrengi og háspennulínur og breytingar á uppbyggingu flutningskerfisins áður en fundarstjórinn, Þorgeir J. Andrésson skrifstofustjóri Landsnets, og þakkaði gestum komuna og sleit fundi.