Eins og fram hefur komið í fréttum er byggðalínan löngu komin að þolmörkum og rafmagnsflutningar um hana milli landshluta því takmörkunum háðir. Sú fyrirvaralausa breyting á álagi sem varð vegna truflunar hjá álverinu í Straumsvík á laugardag og samsvarar 17% lækkun alls álags í raforkukerfinu, olli því að flutningur um byggðalínuna fór langt yfir getu hennar. Til að verjast slíkum atburðum og koma í veg fyrir spennusveiflur hjá notendum er raforkukerfinu strax skipt upp í minni einingar, eða fjórar svonefndar eyjar, en það veldur jafnframt töluverðri skerðingu á afhendingaröryggi á viðkomandi svæðum. Þegar unnið var að uppbyggingu kerfisins eftir álagslækkunina á laugardaginn kom upp bilun í framleiðslueiningu í Norðausturlandseyjunni með tilheyrandi aflskorti og fór þá straumur af svo til öllu Norðausturlandi um tíma, allt frá Blönduvirkjun að Höfn í Hornafirði. Afhendingarstaðir sem tengjast Laxárstöð, Húsavík, Lindabrekku og Kópaskeri urðu þó ekki fyrir skerðingu.

Samtenging raforkukerfisins eftir truflunina á laugardag gekk vel og þakkar Landsnet það mikilli reynslu starfsfólks kerfisstjórnar fyrirtækisins og góðri samvinnu allra þeirra er tengjast flutningskerfinu. Samstarf rekstraraðila skiptir sköpum um það hvernig raforkukerfið stenst miklar truflanir. Unnið er að því að greina betur hvort unnt hefði verið að takmarka áhrif truflunarinnar og afleitt straumleysi og ætlar Landsnet að fara yfir atburðarrás og úrbætur með sínum viðskiptavinum. Áhersla verður lögð á að sá búnaður sem tengist raforkukerfinu uppfylli allar gæðakröfur og að verklag tryggi að ýtrustu aðgátar sé gætt.

Landsnet vinnur stöðugt að því að finna lausnir til að núverandi raforkukerfi standist sem best stór áföll en atburðarrásin reyndist kerfinu ofviða að þessu sinni. Takmörkuð flutningsgeta byggðalínunnar og hætta á óstöðugleika í raforkukerfinu vegna hennar hefur orðið til þess að gerðar hafa verið áætlanir um styrkingu byggðalínunnar með byggingu nýrra lína með mun meiri flutningsgetu.
Aftur í allar fréttir