Hægt er að taka á móti 2500 MW í sveigjanlegri framleiðslu eins og vindorku. Þetta kom í máli Guðmundar Inga Ásmundssonar á fundi Landsnets, Fjúka orkuskiptin á haf út?, í morgun.
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, ávarpaði fundinn og sagði Ísland vera með metnaðarfulla sýn þegar kæmi að orkuskiptum og að markmiðið væri að vera kolefnishlutlaus tvö þúsund og fjörutíu, óháð jarðefnaeldsneyti fyrst ríkja. Hann sagði einnig að þörf væri á að bæta við virkjunum ásamt því að horfa til bættrar nýtingar til þess að eiga nógu mikið afl í orkuskiptin.
Guðmundur Ingi Ásmundsson sagði líka vindorku eða aðra sveigjanleg framleiðslu geta orðið eina af stoðum orkuframleiðslu landsins. Í samhengi orkuskiptanna þá er nauðsynlegt að breyta markaðsumhverfinu þannig að gagnsæi sé í verðum og verðmyndun. Gagnsætt markaðsumhverfi gefur framleiðendum tækifæri til að senda skilaboð um væntanlegt framboð og notendum merki um hvernig á að bregðast við sveiflum í framboði. Nauðsynlegt er að tengja notendur sem geta notað sveiflukennda orku, eins og rafeldsneytisframleiðendur, iðnaðarstarfsemi eða jafnvel heimili. Þessir aðilar geta þá hagað notkun eftir framboði og nýtt sér aðstæður til dæmis þegar framboð er mikið og þar af leiðandi lægra verð. Það er einnig nauðsynlegt að sammælast um það magn sem miða á við til að fara í full orkuskipti svo hægt sé að undirbúa strax orkukosti, innviði og notendur.
Gnýr Guðmundsson forstöðumaður kerfisþróunar Landsnets sagði m.a. að flutningskerfi Landsnet sé tilbúið að takast á við orkuskiptin, gangi áætlanir um uppbyggingu á kerfinu eftir. Við ákvarðanir um einstakar framkvæmdir í flutningskerfinu er horft til þarfa og væntinga notenda. Þar eru megin áherslupunktarnir markaður, aðgengi að endurnýjanlegri orku, öryggi afhendingar og þróun orkuskipta. Mikilvægt er samhliða þessu að horfa til umhverfisáhrifa og vanda allan undirbúning í þeim tilgangi að lágmarka umhverfisáhrif framkvæmda.
Svandís Hlín Karlsdóttir framkvæmdastjóri viðskipta- og kerfisþróunar sagði miklar breytingar fram undan á raforkumarkaði með aukinni sveigjanlegri framleiðslu. Öruggt raforkukerfi snýst um að halda jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar hverju sinni en virkja þarf hugvit til nýsköpunar og nýjar leiðir til að nýta sveiflukennda orku. Í fyrsta skipti erum við að sjá fram á að minni notendur koma til með að nota sambærilega orku og stærri notendur við tvöföldun markaðarins. Til þess að ná orkuskiptunum er nauðsynlegt að markaðsumhverfið sé tilbúið í umbreytingarnar en samspil markaðar og uppbyggingar grundvallarforsenda fyrir því að við náum markmiðum um orkuskipti. Annað getur ekki án hins verið.
Katrín Olga Jóhannesdóttir framkvæmdastjóri Elma kynnti til leiks fyrirtækið og sagði tilgangur fyrirtækisins væri koma á fót skipulögðum og gegnsæjum heildsölumarkaði fyrir raforku , með því markmiði að valdefla neytandann, auka orkunýtni og þar með orkuöryggi.