Framkvæmd

Ársreikningur Landsnets 2022 var samþykktur á fundi stjórnar í dag, 16. febrúar 2023.

Guðlaug Sigurðardóttir framkvæmdastjóri fjármála hjá Landsneti segir niðurstöður ársreikningsins sýna að félagið standi á sterkum grunni til að takast að við þær breytingar sem eru fram undan í orkumálum. Handbært fé frá rekstri er sterkt, arðsemi eigin fjár félagsins er 6,8% og hlutfall eigin fjár 46,7%. Mikil þörf er á uppbyggingu í flutningskerfinu til næstu ára og því mikilvægt að hafa fjárhagslegan styrk og stöðugleika til að styðja við það verkefni.

„Hlutverk okkar hjá Landsneti er að byggja upp flutningskerfi sem þarf vera í stakk búið að mæta kröfum samtímans ásamt því að geta tekist á við þær áskoranir sem framtíðin býður upp á. Það fylgir því mikil ábyrgð að reka flutningskerfi raforku hvort sem það snýr að afhendingaröryggi, náttúru eða hagkvæmri nýtingu fjármuna. Við lítum svo á að flutningslínurnar okkar séu í lykilhlutverki þegar kemur að orkuskiptum. Til að hámarka nýtingu orkukerfisins og ná markmiðum þjóðarinnar í orkumálum er nauðsynlegt  að ráðast í sambærilegar úrbætur og aðrar þjóðir hafa gert á fyrirkomulagi orkuviðskipta. Framundan eru spennandi tímar og það er því mjög ánægjulegt að ársreikningurinn sýnir styrk fyrirtækisins og getu til að takast á við framtíðina með nýjum eigendum“ segir Guðlaug Sigurðardóttir framkvæmdastjóri fjármála hjá Landsneti. 

Helstu atriði ársreikningsins:

·         Hagnaður nam 32,5 milljónum USD (4.616,4 millj.kr) á árinu 2022 samanborið við 35,6 milljónir USD (5.053,1 millj.kr.) hagnað á árinu 2021

·         Rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði (EBIT) nam 55,1 milljónum USD (7.827,0 millj.kr.) 1 samanborið við 59,0 milljónir USD (8.379,7 millj.kr) árið áður.

·         Handbært fé í lok árs nam 26,3 milljónum USD og handbært fé frá rekstri nam 73,0 milljónum USD.

·         Heildareignir námu 1.032,4 milljónum USD í árslok samanborið við 1.020,2 milljónir USD 2021.

·         Eigið fé nam 482,3 milljónum USD í árslok og eiginfjárhlutfall 46,7%.

·         Arðsemi eigin fjár, á árgrundvelli, var 6,8% á árinu 2022.

Hér er hægt að nálgast fréttatilkynningu sem send var út með nánari upplýsingum og hér er hægt að nálgast ársreikninginn í heild sinni

Aftur í allar fréttir