Líkur á orkuskorti metnar
Nýjar niðurstöður voru gefnar út í dag í skýrslu, sem sýna auknar líkur á skerðingum á raforku yfir tímabilið 2024 til 2028.
Landsnet metur á tveggja ára fresti stöðu framboðs og notkunar, undir nafninu kerfisjöfnuður. Kerfisjöfnuði er ætlað að vekja athygli á mögulegum veikleikum í framtíðar raforkukerfinu okkar sem hægt er að bregðast við með fyrirbyggjandi hætti.
Matið er lykilverkfæri til að meta framboðsöryggi raforku og skapa gagnsæi á stöðu orkuframboðs til að mæta eftirspurn.
Helstu niðurstöður:
· Vaxandi líkur eru á orkuskorti til ársins 2028
· Staðan fer versnandi til 2026 og fer að batna eftir það
· Líkur eru á að orkuskortur verði meiri árið 2028 en í ár
· Áhætta er á forgangsskerðingum allt tímabilið
Auknar líkur á skerðingum næstu ár
Án uppbyggingar í flutningskerfinu og nýjum virkjunum er líklegt að skerðingar munu aukast umtalsvert á næstu 5 árum og áhætta á skerðingum á forgangsorku, sem eru umfram heimildir í samningum, eykst með hverju ári.
Með uppbyggingu flutningskerfis og nýjum virkjunum mun ástandið byrja á að versna og réttir svo úr kútnum eftir árið 2026. Niðurstöður benda til að staðan muni vera verri árið 2028 en árið 2024.
Uppbygging flutningskerfisins mun draga úr áhættu á skerðingum en munu einar og sér ekki duga til að framboð mæti eftirspurn.
Samtenging flutningskerfisins á milli landshluta verður ekki lokið á tímabilinu.
Ef framkvæmdir í flutningskerfi og nýjum virkjunum raungerast dregur úr áhættu á skerðingum á forgangsorku. Áhætta á skerðingum á forgangsorku eykst í slæmu vatnsári og ef uppbygging flutningskerfis og nýrra virkjana tefst.
Huga þarf að fjölbreyttum leiðum til að takast á við hugsanlegar áhættur á skerðingum á forgangsorku. Má þar nefna með gagnsæjum verðmerkjum á virkum orkumarkaði, þróun regluverks, sveigjanlega verðlagningu, ráðstafanir til að valdefla neytendur, þátttaka stórnotenda eða nota markaðsaðferðir til að bregðast við.
Staðan flókin næstu eitt til tvö ár
Enn fremur má lesa úr niðurstöðum greininga í skýrslunni að staðan næstu 12-18 mánuði gæti orðið flókin þar sem vísbendingar eru um að forði uppistöðulóna muni verða nokkurn tíma að rétta úr kútnum eftir óvenjulega þurrt ár 2023-2024. Ofan á það bætist að enn eru nokkur ár í að samtenging flutningskerfisins náist milli landshluta. Þetta gerir það að verkum að raforkukerfið má til skemmri tíma ekki við stórum áföllum eins og viðlíka þurru vatnsári eða langri rekstrarstöðvun stærri aflstöðva svo dæmi séu tekin. Svigrúm til viðhaldsstöðvana á þessu tímabili gæti farið minnkandi á meðan komist er yfir erfiðasta hjallann.
Hér er hægt að nálgast skýrsluna