Drög að frumvarp til laga um breytingu á raforkulögum nr. 65/2003, þar sem kveðið er á með ítarlegum hætti hvernig standa skuli að gerð kerfisáætlunar um uppbyggingu flutningskerfis raforku, er nú til almennrar kynningar á heimasíðu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins. Meginmarkmið frumvarpsins er að tryggja að kerfisáætlun um langtímauppbyggingu raforkuflutningskerfisins á Íslandi fái þann lagalega grundvöll sem nauðsynlegur er fyrir áætlun sem lýtur að jafn mikilvægum grunnkerfum landsins.
„Það sem er fyrst og fremst verið að leggja til að leitt verði í lög er hver sé lagalegur grundvöllur kerfisáætlunar og skapa sátt um niðurstöður hennar,“ segir Guðmundur Ingi Ásmundsson, aðstoðarforstjóri Landsnets, um breytingarfrumvarpið. „Tillögur frumvarpsins eru málamiðlun og munu leiða til aukinnar vinnu og kostnaðar við gerð kerfisáætlunar en niðurstöðurnar verða hins vegar vandaðri grundvöllur fyrir ákvarðanatökur. Með þessum breytingum er verið að tryggja ríkt samráð við alla hagsmunaaðila, færa samráðið framar í ferlið sem mun leiða til skilvirkari ákvarðanatöku í framhaldinu. Eins og málum er nú háttað koma hagsmunaðilar of seint að borðinu, í sumum tilvikum ekki fyrr en komið er að því að gefa út framkvæmdaleyfi. Við vonum að með þessum breytingum verði allt verklag skýrara og gagnsærra og þar með skapist meiri sátt um framkvæmdir.“Frumvarpið er samið í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu að höfðu samráði við Orkustofnun, Landsnet og Samband íslenskra sveitarfélaga. Jafnframt hefur það nú verið lagt fram til opinberrar kynningar og umsagnar á heimasíðu ráðuneytisins áður en það verður lagt fram á Alþingi í haust.
Tilefni og nauðsyn lagabreytingar
Með frumvarpinu er lagt til að við III. kafla raforkulaganna nr. 65/2003 verði bætt við nýjum greinum sem fjalla sérstaklega um kerfisáætlun Landsnets, þ.e. undirbúning hennar, efnislegt innihald og stöðu í stjórnkerfinu (m.a. gagnvart skipulagsvaldi sveitarfélaga). Jafnframt er mælt fyrir um hlutverk Orkustofnunar við að staðfesta og hafa eftirlit með framkvæmd kerfisáætlunar, enda er frumvarpinu jafnframt ætlað að einfalda fyrirkomulag leyfisveitinga, þegar kemur að framkvæmdum við flutningskerfið, og gera ferla skilvirkari og gagnsærri.
Fram kemur í athugasemdum með frumvarpsdrögunum um tilefni og nauðsyn lagasetningar að með frumvarpinu sé lögð til innleiðing á svokallaðri þriðju raforkutilskipun Evrópusambandsins (Tilskipun 2009/72/EB) sem setur sameiginlegar reglur um framleiðslu, flutning, dreifingu og afhendingu rafmagns, auk ákvæða er varða neytendavernd. Í henni eru sérákvæði um kerfisáætlun flutningsfyrirtækja þar sem m.a. kemur fram að samþætta þurfi langtímaáætlun kerfisáætlana, stuðla að fjárfestingu til uppbyggingar og auka þátttöku raforkueftirlitsaðila til að framfylgja þessum markmiðum. Þessum kröfum var fylgt við gerð frumvarpsins og einnig var höfð hliðsjón af nýlegri skýrslu nefndar um lagningu raflína í jörð, sem skipuð var af iðnaðarráðherra í samráði við umhverfisráðherra, og skilaði skýrslu í febrúar 2013. Skýrslan var lögð fram til almennrar umræðu á Alþingi í nóvember 2013. Ein af fjórum meginniðurstöðum nefndarinnar snéri að kerfisáætlun Landsnets og lagði nefndin til að vinnuferli í kringum áætlunina yrði breytt og þriðja raforkutilskipun ESB innleidd og sjónarmið hennar varðandi kerfisáætlun.
Meginefni frumvarpsins
Í núgildandi raforkulögum er ekki kveðið á um lagalega stöðu kerfisáætlunar Landsnets en því er kippt í liðinn með þeim breytingum fyrirhugaðar eru. Þar er lagt til að kerfisáætlunin verði tvískipt, til samræmis við þriðju raforkutilskipun ESB. Skal hún samanstanda annars vegar af langtímaáætlun, sem sýni fram á hvaða þætti í meginflutningskerfinu er fyrirhugað að byggja upp eða uppfæra næstu 10 árin, og hins vegar af framkvæmdaáætlun, sem sýni bæði fjárfestingar sem þegar eru ákveðnar og einnig þær sem væntanlegar eru á næstu þremur árum í öllu raforkukerfinu ásamt tímaáætlun.
Samhliða umræddri breytingu á raforkulögunum hefur komið fram að iðnaðar- og viðskiptaráðherra hyggst leggja fram á haustþingi tillögu til þingsályktunar um stefnu stjórnvalda um lagningu raflína og að drög að henni verði lögð fram til kynningar og umsagnar á vef ráðuneytisins á næstu vikum. Þar verður þá að finna viðmið og meginreglur sem ber að hafa að leiðarljósi við gerð kerfisáætlunar og taka á álitamálum um hvenær skuli leggja rafalínur í jörð og hvenær í lofti.
Samkvæmt núgildandi lögum þarf leyfi Orkustofnunar fyrir nýjum raflínum á 66 kílóvolta spennu eða hærri en með þeim breytingum sem nú eru lagðar til verður kerfisáætlun Landsnets háð samþykki Orkustofnunar, sem hefur eftirlit með gerð hennar. Þannig mun ákvarðanataka Orkustofnunar gagnvart einstökum framkvæmdum í flutningskerfinu færast framar í ferlinu og komið verður í veg fyrir tvíverknað sem nú er oft á tíðum án þess að gerðar verði minni kröfur til undirbúnings framkvæmda í flutningskerfinu. Eftir sem áður verður það hlutverk Orkustofnunar að gæta að markmiðum um öryggi og gæði raforku en stofnunin tekur ekki afstöðu til umhverfisáhrifa framkvæmda eða setur skilyrði þar að lútandi, enda slíkt á hendi annarra stjórnvalda og mikilvægt að skýr skil séu á milli verkefna einstakra stofnana.
Sveitarfélög og samráð
Sökum þeirra miklu hagsmuna sem framkvæmdir vegna raforkuflutningskerfisins hafa á skipulagsmál sveitarfélaga þykir mikilvægt að kveða skýrar á um það í raforkulögum hver staða kerfisáætlunar er gagnvart skipulagsvaldi sveitarfélaga, þannig að stjórnsýsla þeirra mála sé skýr og tryggt að allir nauðsynlegir hagsmunaaðilar geti komið að málum frá upphafi. Í því skyni er lagt til í breytingarfrumvarpi iðnaðarráðherra að lögfesta samráð Landsnets við Samband íslenskra sveitarfélaga, landshlutasamtök sveitafélaga og einstök sveitarfélög sem kunna að þurfa að gera breytingar á skipulagsáætlunum vegna kerfisáætlunar.
Samráð skal einnig haft við alla aðra hagsmunaaðila í upphafi vinnu við gerð kerfisáætlunar (sjá m.a. fylgiskjal með frumvarpi), þannig að strax komi fram þau sjónarmið sem taka þurfi með í reikninginn við úrfærslu áætlunarinnar. Með því er jafnframt dregið úr líkum á því, þegar á framkvæmdastig er komið, að upp komi ágreiningur sem gæti leitt til ítrekaðra tafa og óvissu um framgang verkefna sem eru mikilvæg út frá almannahagsmunum. Samkvæmt frumvarpinu skal tryggja aðkomu allra hagsmunaðila að gerð kerfisáætlunar og jafnframt er þar kveðið á um að sveitarfélagi beri að tryggja að skipulagsmál hindri ekki framgang verkefna sem eru á staðfestri þriggja ára framkvæmdaáætlun kerfisáætlunar. Enn fremur er kveðið á um að sveitarfélagi sé óheimilt að víkja frá tillögu Landsnets, ef það leiði til þess að fyrirtækið nái ekki að uppfylla skyldur sínar samkvæmt gildandi kerfisáætlun hverju sinni.
Þá er í frumvarpinu sérstakt ákvæði um kostnað, ef sú staða kemur upp að raflínu er valinn annar staður eða útfærsla en flutningsyfirtækið leggur til. Ef aðili óskar eftir úrfærslu umfram það sem samræmist opinberri stefnu stjórnvalda og viðmiðum – þá er þessum aðilum gefinn kostur á að greiða kostnaðarmuninn, sjái þeir sér hag í að óska slíkrar breytingar og að því gefnu að slík útfærsla fái samþykki viðkomandi yfirvalda. Sambærilegt ákvæði er að finna í 28. gr. vegalaga „Ef þjóðvegi er að ósk sveitarstjórnar valinn annar staður en sá sem Vegagerðin telur betri með tilliti til kostnaðar og tæknilegrar útfærslu og það leiðir til aukins kostnaðar er heimilt að krefja viðkomandi sveitarfélag um kostnaðarmuninn.“
Sem fyrr segir er frumvarpið nú til opinberrar kynningar og umsagnar á heimasíðu atvinnuvega-og nýsköpunarráðuneytisins og geta allir sent inn athugasemdir fram til 20. ágúst næstkomandi.
- Frétt um breytingarfrumvarpið á vef atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins
- Drög að frumvarpi um kerfisáætlun, 27. júní 2014
- Fylgiskjal með frumvarpi
- Frétt á vef Sambands íslenskra sveitarfélaga