Áætlun um framtíðaruppbyggingu flutningskerfis raforku send Orkustofnun


16.11.2015

Framkvæmd

Í framhaldi af umfangsmiklu kynningar- og samráðsferli við hagsmunaaðila og almenning hefur Landsnet nú lokið vinnu við kerfisáætlun 2015-2024 og umhverfisskýrslu kerfisáætlunar. Hefur áætlunin verið send Orkustofnun til samþykktar, í samræmi við þær breytingar sem Alþingi gerði á raforkulögum í vor.

Mikil vinna hefur verið lögð í kerfisáætlun Landsnets, sem er annars vegar langtímaáætlun til 10 ára um framtíðaruppbyggingu flutningskerfis raforku og hins vegar framkvæmdaáætlun til næstu þriggja ára. Hefur ferlið einkennst af umfangsmiklu samráði við bæði sveitarfélög, raforkuframleiðendur og –kaupendur, fagstofnanir og félagasamtök og bárust 59 ábendingar og erindi frá hagsmunaaðilum og almenningi þegar leitað var eftir athugasemdum við tillögu að kerfisáætlun og drögum að umhverfisskýrslu frá 7. maí til 18. september 2015. Lætur nærri að það sé þreföldun athugasemda frá kynningu núgildandi áætlunar og þar er víða komið við, s.s. varðandi forsendur áætlunarinnar og framtíðarsviðsmyndir, mat á framkvæmdaþörf, útfærslu jarðstrengslausna, áhrif á ferðaþjónustu sem og vegna ákveðinna framkvæmdaverkefna.

Tillit tekið til margvíslegra ábendinga úr samráðsferlinu
Svör Landsnets við athugasemdum liggja nú fyrir á heimasíðu fyrirtækisins. Til að gera framsetningu markvissari var brugðið á það ráð að flokka athugasemdirnar eftir viðfangsefnum þar sem efnistök þeirra eru víða sambærileg, jafnframt því sem fram kemur hverjir standa að baki athugasemdunum.

Almennt hefur Landsnet tekið tillit til margvíslegra ábendinga sem fela m.a. í sér leiðréttingar eða skýrari framsetningu niðurstaðna. Hefur m.a. verið skýrt betur að hugsanleg lagning sæstrengs til Evrópu er ekki lögð til grundvallar í matinu sem og að ekki eru forsendur til staðar hérlendis fyrir lagningu svokallaðs jafnstraumsjarðstrengs yfir hálendið né uppbyggingar meginflutningskerfisins á 132 kV spennu. Þá hefur samráðið dregið fram margvíslegar ábendingar til að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum, eða koma í veg fyrir þau, og verður álitið til þeirra ábendinga á seinni stigum einstakra verkefna.


Ákjósanlegasti valkosturinn
Tveir meginvalkostir, þ.e. tenging yfir miðhálendið eða aðgerðir við núverandi byggðalínu, eru settir fram í kerfisáætluninni um uppbyggingu raforkukerfisins. Á grundvelli þessara tveggja aðalvalkosta eru svo lagðar til níu mismunandi útfærslur með blöndu af nýjum línum og spennuhækkun á eldri línum þar sem nýjar línur geta ýmist verið loftlínur eða jarðstrengir, allt eftir aðstæðum samkvæmt nýlega samþykktri stefnu stjórnvalda í þeim efnum.


Að teknu tilliti til athugasemda og umsagna sem bárust í samráðsferlinu, er það niðurstaðan úr hinu faglegu matsferli að valkostur A1 - tenging yfir hálendið með öflugum flutningslínum til norðurs og suðurs – sé ákjósanlegasti kosturinn til að byggja upp meginflutningskerfi raforku á Íslandi til framtíðar með stöðugleika að leiðarljósi. Hann gerir ráð fyrir að stóru virkjanirnar fyrir norðan og austan verði tengdar saman með öflugum línum og síðan tengdar við stærsta framleiðslukjarnann á Suðurlandi með línu yfir hálendið - þar sem mögulega yrði lagður um 50 km kafla í jörðu til að draga úr sjónrænum áhrifum.


Að öllu samanlögðu er valkostur A1 talinn koma best út m.t.t. umhverfisáhrifa vegna styrkingar meginflutningskerfisins og vera jafnframt fljótlegasta leiðin til að byggja upp kerfið. Þannig megi draga úr orkusóun sem nú er í kerfinu vegna takmarkaðrar flutningsgetu, auka orkuöryggi og stöðugleika í rekstri og koma þannig til móts við almenna byggðaþróun og atvinnuuppbyggingu á mörgum stöðum á landinu með flutningi á umhverfisvænni orku.

Næstu skref
Breytingar sem Alþingi gerði á raforkulögum í vor festu lagagrundvöll kerfisáætlunar í sessi og lögðu jafnframt Landsneti og Orkustofnun auknar skyldur á herðar við gerð hennar. Þannig skal áætlunin nú lögum samkvæmt uppfærð árlega og lögð fyrir Orkustofnun til samþykktar og hefur kerfisáætlun 2015-2024, ásamt umhverfisskýrslu, nú verið send stofnuninni til afgreiðslu.

Kerfisáætlun 2015-2024 og umhverfisskýrsla kerfisáætlunar ásamt fylgigögnum

Aftur í allar fréttir