„Ég er staðráðin í að byrja að „hjóla í vinnuna“ eftir páska, fara út og taka einn hring í hverfinu áður en ég sest við vinnuna hér heima á morgnanna“ segir Rut Kristinsdóttir sérfræðingur okkar í umhverfismálum en hún tók fyrsta kaffibollann með okkur yfir netið í morgun. Hún er ein af þeim fjölmörgu sem stundum hjóla í vinnuna en fyrir ári síðanfékk Rut sér rafmagnshjól sem hún mælir með við alla.
Rut segir að það gangi vel að vinna þau verkefni sem hún er að vinna að heima. Mikilvægt sé að hugsa aðeins út fyrir boxið þegar kemur að því að kynna þau verkefni sem framundan eru, það verði áskorun fyrir alla sem að því koma. Eitt af þeim verkefnum sem eru á borðinu hjá henni í dag er tenging á milli Blöndu og Akureyrar, Blöndulína 3, sem er ein af þremur nýjum línum sem tilheyra nýrri kynslóð byggðalínu sem við erum að vinna með á Norðurlandi.
„Við erum búin að vera með Blöndulínu 3, 100 km línu sem liggur á milli Akureyrar og Blöndu, á teikniborðinu í mörg ár og það fylgir henni löng saga sem við erum vonandi farin að sjá fyrir endann á. Tilgangur með byggingu hennar er að styrkja meginflutningskerfið á Norðurlandi eins og fram hefur komið í umræðunni um línuna. Við höfum átt mjög gott samtal og vinnufundi með verkefnaráði og landeigendum á svæðinu á . Við höfum verið að fara yfir hvaða viðbótarrannsóknir og greiningar þarf að vinna í sumar og ráða til þess fagaðila, en ljóst að þær geta verið nokkuð umfangsmiklar. Í dag erum við svo að taka stórt skerf þegar drög að matsáætlun vegna Blöndulínu 3 fer í loftið, sem er fyrsta skrefið af nokkrum í umhverfismatinu. Framundan er að kynna matsáætlunina og verður það áskorun fyrir okkur sem að því koma í þessu ástandi sem við erum í núna.“
Á borðinu hjá Rut eru líka m.a. Lyklafellslína 1 og þátttaka í vinnu við umhverfismat Kerfisáætlunar Landsnets.
„Þegar matsáætlunin fyrir Blöndulínu 3 er komin í loftið mun Lyklafellslína fá meiri athygli hjá mér, en til stendur að stofna verkefnaráð fyrir línuna og hefja vinnu við nýtt umhverfismat.. Þessi framkvæmd er forsenda þess að hægt sé að rífa Hamraneslínur i Vallahverfinu í Hafnarfirði. Annað stórt verkefni sem ég er svo heppin að koma að ásamt flottu teymi samstarfsfólks er vinna við nýja kerfisáætlun Landnets en sú vinna er í fullum gangi í augnablikinu. Svo er ég sem hluti af rannsóknateymi þróunar- og tæknisviðs, búin að fjarsitja gagnlega fundi með utanaðkomandi aðilum um umhverfisrannsóknir, bæði er varða sýnileikagreiningar og áflug fugla á raflínur.“
Framundan er páskafrí sem Rut mun eyða heima eins og flestir landsmenn. Ætlunin er að taka góðar göngur með tíkina Rán sem er búin að vera mjög glöð undanfarnar vikur að hafa alla heima og geta valið sér skrifborð til að sofa undir á milli þess sem hún rýnir í matsáætlunina.
„Svo er auðvitað matsáætlunin fyrir Blöndulínu tilvalið lestrarefni yfir páskana en frestur til að skila inn athugasemdum er til 27. apríl“ segir Rut og hvetur alla sem áhuga hafa á línunni að kynna sér drögin vel.