Alls bárust um 30 ábendingar og athugasemdir vegna matsáætlunar fyrir Sprengisandslínu. Flestar snúa að andmælum gegn línulögn yfir hálendið en ábendingar bárust einnig um brýna þörf fyrirhugaðra framkvæmda.
Athugasemdir varðandi háspennulínu sneru aðallega að því að ekki skuli spilla lítt snortnu svæði hálendisins með línulögn. Margir slógu þann varnagla að yrði það engu að síður gert þá væri nauðsynlegt að hafa jarðstreng til að takmarka sýnileika línunnar sem mest. Þá var á það bent að vinnsla á landsskipulagsstefnu stæði yfir og rétt væri að bíða eftir niðurstöðu þeirrar vinnu. Einnig þyrfti að meta hvaða aðrir möguleikar væru til orkuflutninga en að þvera hálendið og sérstaklega tiltekið að styrkja megi byggðalínuna. Þá bárust ábendingar um að skoða þurfi vel áhrif á ferðaþjónustu, m.a. þar sem að ímynd Íslands kunni að skaðast við framkvæmd sem þessa, og lágmarka þurfi rask þar sem um sérstaklega viðkvæmt svæði sé að ræða.Ábendingar bárust einnig um brýna þörf umræddra framkvæmda til að nýta betur núverandi orkuframleiðslu og bæta samkeppnisaðstöðu fyrirtækja norðan- og austanlands. Um væri að ræða löngu tímabæra framkvæmd sem hafi verið lengi á skipulagsáætlunum, bæði svæðisskipulagi Miðhálendis Íslands 2015 og á aðalskipulagi viðkomandi sveitarfélaga.
Drög að tillögum að matsáætlun fyrir Sprengisandslínu og Sprengisandsveg voru auglýst þann 30. október 2014 og var veittur frestur til að skila inn ábendingum og athugasemdum til 20. nóvember. Nokkrir aðilar óskuðu eftir lengri tíma og var gefinn frestur í viku til viðbótar. Nú stendur yfir úrvinnsla þeirra ábendinga sem bárust og í framhaldinu verða gerðar breytingar á tillögunni, eftir því sem efni standa til. Að því loknu verður tillagan send til Skipulagsstofnunar til umfjöllunar í samræmi við 8 gr. laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000.