Aukið afhendingaröryggi raforku í Borgarfirði og á Snæfellsnesi


04.12.2013

Framkvæmd

Áætlað er að framkvæmdum við stækkun tengivirkis Landsnets á Vatnshömrum í Borgarfirði ljúki í janúar 2014. Stækkunin eykur afhendingaröryggi raforku á Vesturlandi og eiga notendur ekki að verða fyrir neinum truflunum meðan á framkvæmdum stendur.

Með stækkun tengivirkisins á Vatnshömrum eykst bæði flutningsgeta kerfisins á Vesturlandi og afhendingaröryggi raforku eykst. Verkefnið felst í því að koma fyrir öðrum 132/66 kV spenni í tengivirkinu og einnig er settur upp nýr rofabúnaður ásamt stjórn – og varnarbúnaði. Það er umfangsmesti og dýrasti hluti verkefnisins og hljóðar kostnaðaráætlun samtals upp á um 180 milljónir króna.

Uppsetning háspennubúnaðar stendur yfir
Hönnunarvinnu lauk í apríl og í framhaldinu var leitað tilboða í einstaka verkþætti. Jarðvegs- og byggingaframkvæmdir hófstu í september og lauk í október og í nóvember hófst uppsetning háspennubúnaðar. Var m.a. ekki vandalaust að koma spenninum á staðinn en hann var áður notaður í tengivirki Landsnets á Hryggstekk á Fljótsdalshéraði. Þar var honum ofaukið eftir breytingar en til að nýta búnaðinn var brugðið á það ráð að flytja spenninn frá Egilsstöðum í Borgarfjörð. Það er ekki vandalaust að flytja 70 tonna þungan spenni á milli landshluta um hávetur. Til að auðvelda verkið var 23 tonnum af olíu tappað af spenninum og kælar og gegnumtök fjarlægð, þannig að þyngdin á honum var orðin um 46 tonn, og var þá hægt að hífa spenninn á vagn og tók ferðin norður fyrir land að Vatnshömrum hátt í sólarhring.

Kappkostað að valda ekki truflun hjá almennum notendum
Þeir notendur sem fá rafmagn í gegnum Vatnshamratengivirkið eru allir íbúar Borgarfjarðar og Snæfellsness og hefur verið kappkostað að framkvæmdirnar trufli ekki almenna notendur á svæðinu, enda talið óhentugt í dag t.d. fyrir háskólanemendur að lesa undir próf við kertaljós auk þess sem svæði þar sem rafmagn er nýtt til að kynda upp hús þolir illa langt straumleysi! Vel hefur tekist til við að tryggja að almennir notendur hafi straum, þrátt fyrir umfangsmiklar framkvæmdir í tengivirkinu og má fyrst og fremst þakka það góðu samstarfi Landsnets og RARIK sem annast raforkudreifingu á svæðinu.

Upphaflega var miðað við að framkvæmdum yrði lokið í desember á þessu ári en rysjótt tíðarfar undanfarið hefur valdið töfum og mun verkið því ekki klárast fyrr en í janúarmánuði.

Myndir frá framkvæmdum á Vatnshömrum.

Aftur í allar fréttir