Bætt nýting dregur úr þörf fyrir gjaldskrárhækkun


07.03.2016

Framkvæmd

Landsnet hefur svarað athugasemdum sem Orkustofnun og fimm viðskiptavinir fyrirtækisins í raforkugeiranum gerðu við kerfisáætlun félagins. Athugasemdirnar voru birtar á vef Orkustofnunar 5. janúar síðast liðinn og svör Landsnets hafa nú verið birt á vef fyrirtækisins.

Samkvæmt raforkulögum ber Orkustofnun að fara yfir og samþykkja kerfisáætlun Landsnets og hafa til hliðsjónar markmið um öryggi, skilvirkni, áreiðanleika afhendingar, hagkvæmni, gæði raforku og stefnu stjórnvalda um lagningu raflína. Orkustofnun er einnig skylt að hafa samráð við viðskiptavini Landsnets við stjórnsýslulega meðferð á kerfisáætlun.

Í svörum Landsnets er meðal annars vísað í skýrslu um þjóðhagslegt gildi uppbyggingar flutningskerfis Landsnets frá því í júní 2013 þar sem fram kemur að árlegur heildarkostnaður þjóðfélagsins, ef flutningskerfið verður ekki eflt, er metin á bilinu 2,7 til 10 milljarðar króna. Bent er á að flutningskerfið sé komið að þolmörkum og nauðsynlegt að styrkja það til að unnt verði að styðja við verðmætasköpun og atvinnuuppbyggingu um allt land.

Tekið er undir það sjónarmið sem fram kom í athugasemdum Orkustofnunar og orkufyrirtækjanna að fjárfestingar í flutningskerfinu umfram afskriftir, muni leiða til hækkunar á eignastofni félagsins og geti því mögulega leitt til hækkunar á gjaldskrá. Hins vegar er bent á að aukin notkun kerfisins muni draga úr þörf fyrir hækkun. Þannig hafi töluverð flutningsaukning á síðasta áratug haft þau áhrif að gjaldskrá félagsins hafi lækkað í samanburði við verðlagsþróun.


Breyting á eignastofni jafngildir ekki breytingum á gjaldskrá
Eignir Landsnets sem tekjur fyrirtækisins markast af námu ríflega 90 milljörðum króna í lok síðasta árs. Eignir sem nýtast við flutning orku til stórnotenda eru metnar gróflega á um 65 milljarða króna og eignir sem nýtast við flutning raforku til dreifiveitna og almennings á 25 milljarða.

Framkvæmdaáætlun Landsnets, eins og hún birtist í kerfisáætlun, gerir ráð fyrir að eignastofn félagsins aukist um ríflega 37 milljarða króna á næstu fimm árum vegna styrkingar á flutningskerfinu. Árið 2016 nemur viðbótin ríflega 3,5 milljörðum og 16 milljörðum króna árið 2017. Árið 2018 er viðbótin ríflega 8,6 milljarðar, 1,2 milljarðar króna árið 2019 og árið 2020 er gert ráð fyrir að framkvæmdir við flutningskerfi Landsnet auki eignastofn félagsins um tæpa 8 milljarða króna.

Þegar tekið hefur verið tilliti til afskrifta og viðbótarfjárfestinga gerðu áætlanir Landsnets í árslok 2015 ráð fyrir að árlegar breytingar á eignastofni verði neikvæðar um 1 - 2% á þessu ári og árið 2019, en hækki um 14% árið 2017, 5% árið 2018 og 4% árið 2020. Í svörum Landsnets er undirstrikað að umræddar breytingar jafngildi ekki breytingum á gjaldskrá því fleiri liðir en eignastofn hafi áhrif á hana, s.s. heimiluð arðsemi félagsins, heimilaður rekstrarkostnaður og aukning á raforkuflutningum. Þannig geri raforkuspá ráð fyrir um 1,2% árlegri aukningu hjá dreifiveitum, sem muni draga úr hækkunarþörfinni. Nýjar tengingar á Reykjanesi og á Bakka muni leiða til aukins flutnings sem einnig vinni gegn hækkunaráhrifum stækkandi eignagrunns félagsins, en töluverður hluti fjárfestinganna er vegna þessarar viðbótarnotkunar.

Frétt á vef Orkustofnunar 07.03.2016
Viðbrögð Landsnets við umsögnum og athugasemdum Orkustofnunar og viðskiptavina Landsnets vegna kerfisáætlunar

Aftur í allar fréttir