Aukinn kostnaður vegna flutningstapa í raforkukerfinu


24.10.2013

Framkvæmd

Verð á rafmagni sem Landsnet kaupir til að mæta flutningstapi í raforkukerfinu hækkaði umtalsvert í nýafstöðnu útboði og mun það leiða til gjaldskrárhækkunar á flutningstöpum hjá fyrirtækinu. Lætur nærri að verðið hækki um helming milli ára en undanfarin ár hefur meðalverðið farið lækkandi. Meginskýringin á hækkuninni nú er minna framboð raforku og meiri töp í flutningskerfinu.

Flutningstöp er sú raforka sem tapast í flutningskerfinu vegna viðnáms í flutningslínum og spennum og hefur Landsnet tryggt sér kaup á rafmagni til að mæta þessu tapi til eins árs í senn. Sex orkufyrirtækjum var boðið að taka þátt í útboði Landsnets vegna flutningstapa á árinu 2014 og skiluðu þrjú þeirra, HS Orka, Landsvirkjun og Orkuveita Reykjavíkur, inn tilboðum. Landsnet hefur nú samið við þau um kaup á rafmagni vegna flutningstapa næsta árs.

Leiðir til verulegrar hækkunar á gjaldskrá vegna flutningstapa
Að þessu sinni voru boðnar út tæplega 370 þúsund megavattstundir (MWh) vegna flutningstapa næsta árs í stað tæplega 331 MWh á yfirstandandi ári. Ólíkt því sem verið hefur í útboðum Landsnets undanfarin ár hækkar verðið nú um allt að helming að meðaltali á milli ára - og mun það leiða til hækkunar á gjaldskrá Landsnets. Heildarkostnaður Landsnets vegna kaupa á þessum tæplega 370 þúsund MWh er samkvæmt útboðinu rúmur einn milljarður og 122 milljónir króna sem er um 438 milljónum króna meiri kostnaður en Landsnet þurfti að greiða vegna flutningstapa á síðasta ári. Meðalverðið á kílóvattstund (kWh) er nú 3.034 krónur, samanborið við 2.068 krónur á kWh í síðasta útboði haustið 2012, sem er 47% hækkun milli ára. Áhrif þessara verðhækkana á gjaldskrá Landsnets vegna flutningstapa verður nú lögð fyrir Orkustofnun og í framhaldinu kynnt viðskiptavinum.

Frekari aukning flutningstapa
Þá er fyrirséð að kostnaður Landsnets vegna flutningstapa mun aukast vegna meiri orkuflutninga milli landshluta. Þeir orkuflutningar fara um byggðalínuna, sem er nær fulllestuð, og það leiðir til þess að hærra hlutfall af orku tapast en í þeim hlutum flutningskerfisins þar sem álagið er minna. Til að mæta þessum fyrirséðu orkutöpum var raforkumagnið sem boðið var út nú aukið töluvert frá því sem var í útboðinu 2012. Verði flutningskerfi raforku ekki styrkt með aukinni flutningsgetu milli landshluta er viðbúið að töp haldi áfram að aukast á næstu árum en sú flutningsgeta sem nú er fyrir hendi er oft og tíðum fullnýtt.

Aftur í allar fréttir