Uppbygging nýrrar kynslóðar byggðalínu er hafin og er fyrsti áfanginn í þeirri uppbyggingu þrjár nýjar 220 kV háspennulínur á Norður- og Austurlandi. Þær eru Kröflulína 3 frá Kröfluvirkjun í Fljótsdalsstöð, en framkvæmdir við lagningu hennar eru þegar hafnar. Hólasandslína 3 er síðan fyrirhuguð frá Hólasandi til Akureyrar og er umhverfismati á þeirri leið lokið og áætlað að framkvæmdir hefjist á næsta ári. Þriðja línan er svo Blöndulína 3, og mun hún tengja Akureyri við Blönduvirkjun en undirbúningur að nýju umhverfismati er hafin.
Lega línunnar er fyrirhuguð um fimm sveitarfélög. Húnavatnshrepp, Sveitarfélagið Skagafjörð, Akrahrepp, Hörgársveit og Akureyrarbæ.
Byggðalínan sem liggur frá Brennimel í Hvalfirði, norður og austur fyrir land og vestur að Sigöldu er mikilvægur hlekkur í raforkuöryggi landsmanna. Hún var reist á árunum 1972-1984 og var byggð til að taka við aukinni notkun til framtíðar. Síðan byggingu hennar lauk hefur raforkunotkun í landinu margfaldast, bæði vegna uppbyggingu iðnaðar og eins vegna almennra atriða sem fylgja fólksfjölgun í landinu. Nú er svo komið að byggðalínan er orðin takmarkandi þáttur í orkuöryggi landsmanna og hamlar mikilvægum þáttum eins og atvinnuuppbyggingu og orkuskiptum á flestum stöðum á landinu og því kominn tími á nýja kynslóð byggðalínu.
Sá hluti byggðalínunnar sem liggur á milli Varmahlíðar og Akureyrar, Rangárvallalína 1 er elsti hluti byggðalínunnar og jafnframt sá hluti hennar sem hefur minnstu flutningsgetuna eða um 100 MW. Blöndulína 3 er eins og áður segir mikilvægur hlekkur í nýrri kynslóð byggðalínu og mun einnig hafa þau staðbundnu áhrif að tengja Blöndustöð betur við Kröflu og Þeistareyki, ásamt Fljótsdalsstöð og mynda þannig sterkan samtengdan kjarna virkjana og notenda á Norður- og Austurlandi. Flutningstakmarkanir í kerfinu hafa um árabil hamlað atvinnuuppbyggingu á svæðinu en með tilkomu Blöndulínu 3 verður þessum takmörkunum aflétt. Seinna meir stendur svo til að samtengja Norður- og Austurland við sterkari hluta meginflutningskerfisins á Suðvesturlandi og stuðla þannig að auknu afhendingaröryggi á landsvísu, betri nýtingu núverandi aflstöðva og gera mögulegt að byggja upp atvinnulíf óháð staðsetningu ásamt því að orkuskiptin gangi auðveldlega fyrir sig.
Fyrirhuguð Blöndulína 3 er rúmlega 100 kílómetrar og er umhverfismat vegna framkvæmdarinnar að hefjast. Fyrir liggur eldra umhverfismat á línuleiðinni en með tilliti til breyttra áherslan í umhverfismati, m.a. kröfu um nánari umfjöllun um valkosti framkvæmda er ætlunin að vinna nýtt umhverfismat fyrir línuna.
Samráð og samtal við samfélagið
Í undirbúningsferlinu er lögð áhersla á að eiga samtal við hagsmunaaðila og verður m.a. stofnað verkefnaráð Blöndulínu 3 þar sem í munu sitja fulltrúar frá sveitarfélögum, náttúruverndarsamtökum, atvinnuþróunarfélögum og fleirum. Stofnun ráðsins og fyrsti fundur verður haldinn nú í byrjun nóvember og samhliða því verða einnig haldnir opnir kynningarfundir fyrir íbúa á svæðinu, annars vegar á Sauðárkróki 6. nóvember og hins vegar í félagsheimilinu Hlíðabæ 7. nóvember.
Í gegnum samráð og samtal, rannsóknir og greiningar verður farið í gegnum mat á umhverfisáhrifum og við fáum betri mynd á hvert verkefnið er, hvað er hægt að gera og m.a. hvar og hvernig línuleiðinni verður háttað.
Við hvetjum alla til að koma og taka þátt í samtali og samráði með okkur, það skiptir máli fyrir samfélagið að sem best sátt náist um uppbyggingu línunnar sem er ætlað að vera hluti að nýrri kynslóð byggðarlína sem fleytir okkur inn í framtíðina.
Elín Sigríður Óladóttir
Samráðsfulltrúi
Grein sem britist í Feyki.