Þann 1. janúar breytist gjaldskrá Landsnets til stórnotenda, gjaldskrá til dreifiveitna ásamt gjaldskrá vegna flutningstapa og kerfisþjónustu.
Gjaldskrá til dreifiveitna
Breyting á gjaldskrá til dreifiveitna, fyrir skerðanlegan flutning og innmötun felur í sér hækkun um 9,9% frá og með 1. janúar 2021. Hlutfall flutningskostnaðar af rafmagnsreikningi heimila og smærri fyrirtækja er milli 10 og 15% og því eru áhrif breytingarinnar um 1-1,5% hækkun rafmagnsreiknings.
Gjaldskrá til stórnotenda
Landsnet hefur ávallt lagt áherslu á stöðugleika og jafnvægi í gjaldskrá sinni en gjaldskrá stórnotenda hefur einungis lækkað frá árinu 2013. Gjaldskrá stórnotenda hækkar nú um 5,5% og er það mat fyrirtækisins að sú gjaldskrá sé varfærin miðað við aðstæður.
Flutningstöp
Nú liggur fyrir kostnaður við útboð á flutningstöpum fyrir fyrsta ársfjórðung 2021 og mun gjald vegna flutningstapa verða 94,15 kr. á MWst.
Flutningstöp eru boðin út á þriggja mánaða fresti og endurspeglar innkaupsverð okkar gjaldskrá vegna flutningstapa hverju sinni. Innkaupsverð okkar á flutningstöpum er mismunandi milli ársfjórðunga þar sem raforkuverð sveiflast eftir árstíðum.
Kerfisþjónusta
Gjaldskrá Landsnets vegna kerfisþjónustu endurspeglar innkaupsverð Landsnets hverju sinni af reiðuafli, reglunaraflstryggingu og varaafli. Kostnaður vegna kerfisþjónustu er hreinn gegnumstreymisliður hjá Landsneti að viðbættu leyfilegu umsýslugjaldi.
Við höfum nú samið um kaup á reglunaraflstryggingu að undangengnu útboði fyrir tímabilið janúar til desember 2021. Innkaupsverð hafa hækkað frá sama tíma á árinu á undan og þarf að hækka gjaldskrá vegna kerfisþjónustu um 2,57% frá og með 1. janúar 2021. Gjaldið verður þá 67,56 kr. á MWst.
Aðrir gjaldskrárliðir, en þeir sem eru nefndir hér að ofan, munu haldast óbreyttir.