Búðarhálslína tilbúin fyrir raforkuflutning


12.12.2013

Framkvæmd

Búðarhálslína 1, sem flytja mun raforku frá Búðarhálsvirkjun, hefur nú verið tengd við meginflutningskerfi Landsnets ásamt nýju tengivirki við Búðarháls. Raforkuflutningur frá Búðarhálsvirkjun á að hefjast í byrjun næsta árs.

Búðarhálslína 1 er alls 5,6 km löng 220 kílóvolta (kV) háspennulína frá tengivirkinu við Búðarháls að Langöldu þar sem hún er T-tengd inn á Hrauneyjafosslínu 1 og þar með flutningskerfi Landsnets. Tengivirkið er yfirbyggt með tveimur 220 kV DCB aflrofum.

Mat á umhverfisáhrifum línunnar og Búðarhálsvirkjunar fór fram fyrir nokkrum árum og var fallist á framkvæmdina með skilyrðum. Legu línunnar var breytt árið 2010 en breytingin var ekki háð mati á umhverfisáhrifum samkvæmt úrskurði Skipulagsstofnunar.

Framkvæmdir hófust sumarið 2012
Búðarhálslína 1 var spennusett í fyrsta sinn þann 10. desember sl. ásamt tveimur 220 kV teinum í tengivirkinu en gert er ráð fyrir að raforkuflutningur frá Búðarhálsvirkjun hefjist í upphafi árs 2014.

Framkvæmdir hófust sumarið 2012 með lagningu vegslóða, vinnu við undirstöður fyrir möstur og byggingu tengivirkishússins. Sumarið 2013 voru háspennumöstrin reist, leiðari línunnar strengdur og lokið við uppsetningu búnaðar í tengivirkinu. Í sumar verður unnið að lóðarfrágangi við tengivirkið og frágangi á umhverfi og slóðum meðfram línunni.

Orkuvirki ehf. annaðist uppsetningu háspennubúnaðarins í tengivirkinu. Ístak hf. byggði tengivirkishúsið, annaðist jarðvinnu, gerð vegslóða og uppbyggingu á undirstöðum fyrir háspennumöstrin og starfsmenn netreksturs Landsnets sáu um strengingu leiðara og jarðvírs.

Framkvæmdakostnaður við byggingu Búðarhálslínu 1 og tengivirkið er um einn milljarður króna.

 
Yfirlitskort og myndir frá framkvæmdum við Búðarhálslínu 1 og tengivirkið við Búðarháls.

Aftur í allar fréttir