Stefnt er að því að drög að skýrslu vegna umhverfismats á kerfisáætlun Landsnets liggi fyrir í marsmánuði en þetta er í fyrsta sinn sem unnið er að umhverfismati á kerfisáætlun fyrirtækisins. Alls bárust 10 athugasemdir við matslýsingu sem kynnt var í byrjun nóvember og telur Landsnet að hægt verði að taka tillit til flestra þeirra við matsvinnuna.
Athugasemdir bárust frá innanríkisráðuneytinu, Skipulagsstofnun, Umhverfisstofnun, Hvalfjarðarsveit, Sveitarfélaginu Vogum, Atvinnuþróunarfélagi Þingeyinga, Landvernd og Vegagerðinni, auk tveggja einstaklinga.
Áhersla á skýra valkosti
Stór hluti ábendinganna snýr að umfjöllun um valkosti og mikilvægi þess að fjalla um skýra valkosti, s.s. um línuleiðir og samanburð á jarðstrengjum og loftlínum. Þá var bent á gögn sem mikilvægt væri að taka tillit til, þar má nefna evrópska landslagssáttmálann, skýrslu nefndar um raflínur í jörð og skýrslur um áhrif raflína á ferðamennsku. Einnig óskuðu nokkrir hagsmunaðilar eftir því að fjallað yrði um áhrif sæstrengs til Bretlandseyja á flutningskerfið.
Að mati sérfræðinga Landsnets verður hægt að taka tillit til flestra ábendinganna sem bárust við matslýsingu umhverfismats kerfisáætlunarinnar og þær verði til þess að bæta matsvinnuna. Nú er unnið að því að skilgreina betur þá valkosti sem verða til samanburðar í umhverfismati kerfisáætlunarinnar og forsendur þeirra. Jafnframt er unnið áfram að mótun valkosta við þróun meginflutningskerfisins, s.s. út frá spennustigi, leiðavali og kerfisútfærslu, og verða þeir í framhaldinu bornir saman með tilliti til umhverfisþátta.
Stefnt er að því að drög að umhverfisskýrslu liggi fyrir í marsmánuði og verða þau kynnt á sambærilegan hátt og matslýsingin. Öllum gefst þá kostur á að kynna sér skýrsluna og koma á framfæri ábendingum og athugasemdum.
Öll helstu gögn á heimasíðu Landsnets
Ákvörðun Landsnets um að umhverfismeta kerfisáætlunina byggir á úrskurði umhverfis- og auðlindaráðherra frá 21. maí 2013 um að kerfisáætlun fyrirtækisins falli undir lög um umhverfismat áætlana.
Kynningar og samráð vegna umhverfismatsvinnu kerfisáætlunar verður í samræmi við lög nr. 106/2005 um umhverfismat áætlana og mun Landsnet birta öll helstu gögn á heimasíðu fyrirtækisins.