Efnislegar og góðar ábendingar í skýrslu Ríkisendurskoðunar um Landsnet


01.10.2015

Framkvæmd

Að mati Landsnets koma fram efnislegar og góðar ábendingar í nýútkominni stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar á starfsemi félagsins sem leitt geta til aukinnar skilvirkni í raforkumálum og stuðlað að bættu verklagi.

„Við fögnum því að þessi úttekt á hlutverki, eignarhaldi og áætlunum Landsnets liggur nú fyrir á 10 ára afmæli félagsins. Þetta er greinargott yfirlit um þessa þætti í starfsemi og starfsumhverfi Landsnets og ábendingar um ýmis atriði sem gætu verið til framfara,“ segir Guðmundur Ingi Ásmundsson forstjóri um skýrslu Ríkisendurskoðunar.

Varðandi umfjöllun um áætlanir Landsnets segir forstjórinn rétt að hafa í huga að breytingar á regluverki raforkulaga um kerfisáætlun hafi nýlega tekið gildi, eða í júní á þessu ári, og því sé nú í fyrsta sinn verið að vinna kerfisáætlun félagsins á þessum breytta lagagrunni. Jafnframt verði að horfa til þess umhverfis sem önnur flutningsfyrirtæki í Evrópu búa við og til framtíðar litið sé mikilvægt að regluverk raforkuflutninga á Íslandi sé sem líkast regluverki annarra Evrópuþjóða.

Heildstæð orkustefna mikilvæg
Meginniðurstöður úttektar Ríkisendurskoðunar eru settar fram í fimm ábendingum í skýrslunni; fjórum til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins (iðnaðar- og viðskiptaráðherra) og einni til Landsnets.

Hvetur Ríkisendurskoðun atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið í fyrsta lagi til að marka heildstæða orkustefnu fyrir Ísland því skýr og markviss orkustefna sé mikilvægur þáttur við að eyða þeirri óvissu sem ríki um uppbyggingu flutningskerfis raforku. Í öðru lagi þurfi að tryggja að úrræði ráðherra gagnvart Landsneti sem flutningsfyrirtæki séu virk og nýta reglugerðarheimild raforkulaga þar um. Þá þurfi ráðuneytið í þriðja lagi að tryggja sjálfstæði Landsnets gagnvart aðilum á raforkumarkaði og er hvatt til þess að ráðuneytið kanni hvort sérleyfis- og samkeppnisþættir raforkugeirans séu nægilega vel aðgreindir við núverandi aðstæður. Að lokum er atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hvatt til að tryggja Orkustofnun nauðsynleg skilyrði til að sinna eftirlitshlutverki sínu með Landsneti, m.a. með því að efla sjálfstæði raforkueftirlits stofnunarinnar og tryggja henni þannig starfsskilyrði að hún geti birt ákvarðanir um leyfða arðsemi og tekjumörk flutningskerfisins innan tímamarka sem raforkulög kveða á um.

Ábending Ríkisendurskoðunar til Landsnets snýr að því að tryggja jafnræði við gerð kerfisáætlunar og huga í þeirri vinnu að öllum markmiðum raforkulaga. Er Landsnet hvatt til að vanda vel til verka við undirbúning, gerð og framkvæmd kerfisáætlana, taka tillit til allra þeirra sem hafa hagsmuna að gæta við uppbyggingu flutningskerfisins, gæta jafnræðis í hvívetna og vinna að þjóðhagslegri hagkvæmni kerfisins. Um leið þurfi að huga að afhendingaröryggi, raforkugæðum, eflingu byggðar og umhverfissjónarmiðum og fyrirtækinu beri því að leita allra leiða til að auka samráð og samræðu við raforkunotendur, almenning og opinbera aðila.

Brýnt að horfa til fjölþættra sjónarmiða
Í viðbrögðum Landsnets, sem birt eru í skýrslunni, er tekið undir þessa ábendingu Ríkisendurskoðunar og bent á að afar brýnt sé að horfa til fjölþættra sjónarmiða við gerð kerfisáætlunar, enda slíkt verklag líklegra til að ná fram betri sátt um niðurstöðuna og auka þannig öryggi raforkuflutnings í landinu.

Bent er á að kerfisáætlanir félagsins voru upphaflega spár um uppbyggingu flutningskerfisins, án lagalegra bindinga eða heimilda, en umtalsverðar breytingar hafi orðið á lagalegri stöðu kerfisáætlana með því að fella þær undir lög um umhverfismat áætlana og breytingum á ákvæðum raforkulaga í júní sl. Ítarleg ákvæði um samráð og aðkomu hagsmunaaðila eru bæði í raforkulögum og lögum um umhverfismat áætlana og hafi Landsnet lagt sig fram um að tryggja aðkomu hagsmunaðila. Send hafi verið erindi til þeirra auk þess sem vinnan hafi verið auglýst opinberlega og haldinn opinn kynningarfundur um drög að kerfisáætlun og umhverfisskýrslu sem aðgengilegur er á heimasíðu Landsnets.

Þá er vakin athygli á því að félagið ætli að koma á fót sérstöku hagsmunaráði þar sem fjallað verði um kerfisáætlanir og umhverfisskýrslur. Þannig verði hagsmunaaðilum veitt aðkoma að þessum málum, umfram það sem lög kveða á um, og þeim gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum á fyrstu stigum undirbúnings framkvæmda. Ætlar Landsnet að horfa til ábendingar Ríkisendurskoðunar við nánari útfærslu á starfsemi hagsmunaráðsins.

Í svari Landsnets við ábendingu Ríkisendurskoðunar er að lokum áréttað mikilvægi þess að halda áfram vinnu við að auka skilvirkni við undirbúning og ákvarðanir um framkvæmdir í flutningskerfinu. Bent er á að kæru- og dómsmálum vegna fyrirhugaðra framkvæmda hafi fjölgað mikið, beinlínis vegna óskilvirkni í kerfinu frekar en faglegra sjónarmiða, og því mikilvægt að afmarka hlutverk stofnana með skýrum hætti, koma í veg fyrir skörun á milli þeirra og einfalda regluverk án þess að það komi niður á fagalegum þáttum.

Frétt á vef Ríkisendurskoðunar.

Linkur í skýrsluna á vef Ríkisendurskoðunar.

Aftur í allar fréttir