Endurbætur standa nú yfir á tengivirki Landsnets við Sigöldu sem hafa það að markmiði að draga úr óstöðugleika byggðalínunnar í truflunartilvikum og styrkja orkuafhendingu á Austurlandi.
Tengivirki eru mannvirki sem notuð eru til að setja rafmagn inn á flutningskerfið eða til að taka rafmagn út af kerfinu. Helsti búnaður í tengivirkjum eru aflspennar, aflrofar, skilrofar, jarðblöð, mælaspennar, varnarbúnaður, launaflsbúnaður og ýmiskonar hjálparbúnaður fyrir kerfisreksturinn.Endurbæturnar í Sigöldutengivirkinu fela í sér að bæta við svokölluðum teinatengisaflrofa á aðaltein svo mögulegt verði að láta tvær vélar í Sigöldu framleiða inn á austurhluta byggðalínunnar í truflunum. Þá skipta kerfisvarnir flutningskerfinu upp í tvær eyjar með því að slíta kerfið í sundur, annars vegar í tengivirkinu í Sigöldu og hins vegar í tengivirkinu í Blöndu, og styrkja þannig orkuafhendingu á Austurlandi og viðhalda afhendingaröryggi þar meðan á eyjarekstri stendur.
Endurbæturnar á tengivirkinu í Sigöldu eru fyrst og fremst tímabundin neyðarráðstöfun til að bregðast við rekstrarerfiðleikum sem fylgja því að byggðalínan er nú rekin yfir stöðugleikamörkum stóran hluta ársins. Framkvæmdir hafa gengið vel og er áætlað að þeim ljúki í september. Kostnaður við endurbæturnar er um 200 milljónir króna.
Myndir: Flutningur á tengihúsi fyrir endamúffur jarðstrengs sem tengir vélar 2 og 3 í Sigöldu við tengivirki Landsnets.