Engin hækkun á flutningsgjaldskrá Landsnets til almennings


30.01.2014

Framkvæmd

Flutningsgjaldskrá Landsnets til dreifiveitna, og þar með almennings, var ekki hækkuð um áramótin og var sú ákvörðun tekin með tilliti til þeirrar umræðu sem er í þjóðfélaginu vegna baráttunnar gegn verðlagshækkunum.

Gjaldskrá Landsnets er fyrir flutning á raforku annars vegar og kerfisþjónustu hins vegar. Eingöngu var samþykkt breyting á gjaldskrá til stórnotenda, þ.e. aðila eins og álvera, gagnavera og kísilverksmiðja, sem nota a.m.k. 80 gígavattstundir (GWh) á ári. Stórnotendagjaldskráin er í bandaríkjadölum en flutningsgjaldskráin til almennings, sem dreifiveiturnar greiða, er í íslenskum krónum.



Sá hluti gjaldskrárinnar sem tekur til kerfisþjónustuhlutverks Landsnets nær til kostnaðar vegna tapa og svokallaðs reiðuafls í kerfinu. Kostnaðurinn er greiddur af þeim sem nota kerfið og hefur Landsnet efnt til útboða árlega á samkeppnismarkaði. Nemur hann um 10% af flutningsverðinu til dreifiveitna og er eins konar gegnumstreymisliður. Skal gjaldskrá kerfisþjónustunnar taka mið af kostnaði, ásamt hæfilegri þóknun, en eftir útboð sem fram fór í lok síðasta árs lágu fyrir breytt verð þar sem raforkuframleiðendur hækkuðu verð nokkuð.



Þar sem Landsnet hefur eingöngu stjórn á ákvörðun þóknunar vegna þessarar gjaldskrár – sem nemur aðeins 1,5% af umræddum gjaldskrárlið – er fyrirtækinu ekki leyfilegt að lækka þennan hluta gjaldskrárinnar sérstaklega. Til að gjaldskrá Landsnets vegna kerfisþjónustu og flutningstapa lækki þurfa raforkuframleiðendur að lækka verðtilboð sín og þá mun Landsnet í kjölfarið lækka þennan hluta gjaldskrárinnar.



Allt frá stofnun hefur Landsnet lagt áherslu á hagræðingu í starfseminni. Grundvöllur gjaldskrárinnar er settur í raforkulögum og hefur hún aldrei fylgt almennri verðlagsþróun, þar sem veruleg hagræðing hefur verið í starfseminni.



Að lokum skal áréttað að raforkunotendur, sem vilja kynna sér hversu há flutningsgjöldin eru, geta nýtt sér reiknivél Landsnets hér (http://www.landsnet.is/raforkukerfid/flutningsgjaldskra/reikniveldreifiveitur/) á vefnum. Þar er hægt að slá inn rafmagnsnotkun og sjá í framhaldinu hversu há flutningsgjöldin eru miðað við gildandi gjaldskrá hverju sinni.



Aftur í allar fréttir