Erlendir ferðamenn jákvæðir í garð endurnýjanlegrar orkuvinnslu


07.06.2016

Framkvæmd

Gallup hefur framkvæmt rannsókn fyrir Landsvirkjun sem gefur sterka vísbendingu um jákvætt viðhorf erlendra ferðamanna til endurnýjanlegrar orkuvinnslu á Íslandi. Samkvæmt könnuninni eru 97% erlendra ferðamanna jákvæð í garð endurnýjanlegra orkugjafa hér á landi. Rannsóknin var framkvæmd á netinu og voru þátttakendur 1.014 talsins.

Þá svöruðu þrír af hverjum fjórum, 75%, því til að vinnsla endurnýjanlegrar orku hefði haft jákvæð áhrif á það hvernig þeir upplifðu íslenska náttúru. Eitt prósent taldi hana hafa haft neikvæð áhrif á upplifunina. Tæplega helmingur aðspurðra, eða 46%, lýsti yfir áhuga á því að heimsækja gestastofu í aflstöð í næstu heimsókn sinni til landsins og 37% töldu að aukin vinnsla endurnýjanlegrar orku á Íslandi myndi auka líkurnar á því að þau sæktu landið heim á ný. 93% þátttakenda í rannsókninni höfðu tekið eftir orkuvinnslu með endurnýjanlegum orkugjöfum í heimsókn sinni.

Taka ber fram að ferðamenn voru ekki spurðir um afstöðu til einstakra virkjanaáforma, heldur einungis til núverandi orkuvinnslu. Landsvirkjun hefur í hyggju að láta vinna frekari kannanir á afstöðu erlendra ferðamanna til orkuvinnslu á Íslandi og þeirra virkjana sem þegar hafa verið reistar.

Hér er hægt að nálgast niðurstöðurnar

Aftur í allar fréttir