Alvarlegar rekstrartruflanir urðu í raforkukerfi Landsnets í fyrradag þegar unnið var að uppfærslu tölvubúnaðar orkustjórnkerfis fyrirtækisins. Atvikið leiddi til mikillar undirtíðni í öllu kerfinu og undirtíðniútleysinga bæði á Austurlandi og Suðvesturlandi. Rekstur byggðalínunnar er löngu kominn að þanmörkum og spennusveiflur tíðar, einkum austanlands, því lítið má út af bregða í stjórn raforkukerfisins.
Truflunin varð þegar unnið var að uppfærslu orkustjórnkerfis Landsnets og stóð hún yfir í tæplega tvo tíma, frá um klukkan hálf ellefu fyrir hádegi miðvikudaginn 18. júní til klukkan 12:20. Falsboð sem fóru af stað gerðu það að verkum að niðurkeyrsla varð í Búrfellsstöð og á sama tíma uppkeyrsla í Fljótsdalsstöð. Leiddi það m.a. til útleysingar í Fljótsdalsstöð og straumleysis hjá stórnotendum eins og Fjarðaáli, Járnblendinu, Norðuráli og ISAL. Einnig varð straumlaust hjá notendum á skerðanlegum flutningi á Austurlandi, s.s. á Norðfirði, Eskifirði, Seyðisfirði og Fáskrúðsfirði.Tilkynnt hefur verið um tjón á raftækjum á Austurlandi í kjölfar truflunarinnar og hafa kvartanir borist til bæði Landsnets og RARIK. Sem fyrr er almennum raforkunotendum, sem telja sig hafa orðið fyrir tjóni vegna straumleysis eða spennusveiflna, bent á að vera í sambandi við viðkomandi dreifiveitu.