Flutningskerfið þarf að styrkja


14.05.2014

Framkvæmd

Skoðanakönnun sem gerð var fyrir Landsnet sýnir að meirihluti svarenda er fylgjandi virkjun og nýtingu endurnýjanlegrar orku og vill áframhaldandi uppbyggingu fjölbreytts iðnaðar. Innan við helmingur svarenda segist verða var við loftlínur í næsta nágrenni sínu eða annars staðar en meirihluti svarenda vill nýta jarðstrengi að minnsta kosti til jafns við loftlínur. Færri vilja hins vegar greiða hærra verð fyrir raforkuna til að fá jarðstrengi í stað loftlína.

Þetta kom fram í erindi Guðmundar Inga Ásmundssonar, aðstoðarforstjóra Landsnets, á vorfundi Samorku á Akureyri í dag þar sem málefni orku- og veitufyrirtækja voru í brennidepli. „Flutningskerfið þarf að styrkja“ var yfirskrift erindisins og kynnti hann þar m.a. frumniðurstöður úr skoðanakönnun sem gerð var nýlega fyrir Landsnets og styður þetta sjónarmið. Meirihluti svarenda er fylgjandi virkjun og nýtingu endurnýjanlegrar orku og vill áframhaldandi uppbyggingu fjölbreytts iðnaðar. Mikill vilji er jafnframt til þess að horft verði til byggðasjónarmiða við nýtingu orkunnar og vandað sé til allrar vinnu og framkvæmdir fari í gegnum umhverfismat.

 
Kerfisáætlunin þarf að fá skipulagslegan og lagalegan sess
Aðstoðarforstjóri Landsnets áréttaði að knýjandi þörf væri á styrkingu meginflutningskerfis raforku. Byggðalínan væri komin að þanmörkum og ástand kerfisins í dag um margt farið að líkjast því sem var á áttunda áratug síðustu aldar áður en samtenging kerfisins kom til sögunnar. Hann sagði að mikið væri lagt upp úr vönduðum vinnubrögðum við úrfærslur á uppbyggingaráformum Landsnets og nefndi meðal annars til sögunnar nýja kerfisáætlun fyrirtækisins sem færi nú í fyrsta skipt í gegnum umhverfismat áætlana. Það væri þó ekki nóg að ráðast í gerð vandaðra áætlana ef þær væru ekki grundvöllur framtíðarákvarðana. Mikilvægt væri að skapa kerfisáætluninni slíkan skipulagslegan og lagalegan sess - og það fyrirkomulag sem nú væri í gildi varðandi skipulagsvaldið, sem er hjá sveitafélögunum, ylli oft árekstrum við aðra samfélagslega hagsmuni. Ferlið allt væri þungt í vöfum, samráð við sveitarfélögin kæmi t.d. seint inn í ferlið, og hægt að kæra niðurstöður á öllum stigum.

Varðandi jarðstrengi og loftlínur ítrekaði Guðmundur að niðurstaða þyrfti að fást sem fyrst frá stjórnvöldum varðandi stefnumótun í þeim efnum. Hann benti á að innan við helmingur svarenda í í skoðanakönnun Landsnets verði var við loftlínur í næsta nágrenni sínu eða annars staðar. Meirihluti vilji hins vegar nýta jarðstrengi að minnsta kosti til jafns við loftlínur en færri vilji hins vegar greiða hærra verð fyrir raforkuna til að fá jarðstrengi í stað loftlína. Þá telja svarendur mikilvægt að koma í veg fyrir sjónræn áhrif raflína í námunda við náttúruperlur en ekki eins mikilvægt í námunda við byggð. Guðmundur sagði að þetta væri í takt við áherslur Landsnets. Mikil þróun væri nú í jarðstrengjamálum bæði hérlendis og erlendis. Meirihluti dreifikerfis raforku á Íslandi á lægri spennu væri nú þegar kominn í jörðu og áhugaverð þróun ætti sér stað með strengi á hærri spennum, þó enn væru þeir töluvert dýrari kostur en loftlínur. Til að fylgjast sem best með þróun þeirra mála og stunda rannsóknir hefur Landsent sett á laggirnar hóp innlendra og erlendra jarðstrengjasérfræðinga. Meðal verkefna sem hópurinn vinnur nú að er fyrirhuguð línulögn yfir hálendið,sem er umrædd og umdeild framkvæmd vegna styrkingar meginflutningskerfisins.

Sýnileiki Sprengisandslínu til þess að gera lítill frá nýju vegstæði
Sjónræn áhrif Sprengisandslínu, sem lögð yrði að mestu í vegstæði núverandi hálendisvegar yfir Sprengisand um leið og nýr Sprengisandsvegur yrði byggður upp að mestu vestan núverandi vegar, verða til þess að gera lítil séð frá nýja vegstæðinu, samkvæmt þeim athugunum sem nú liggja fyrir hjá sérfræðingahópi landsnets á sýnileika línunnar. Hefur hann bæði verið metinn fyrir loftlínu alla leiðina og einnig blandaða lausn; þ.e. loftlínu að hluta og annars vegar 25 og hins vegar 50 km jarðstrengskafla yfir mikilvægasta kafla leiðarinnar. Áform voru einnig um að meta sýnleika miðað við 75 km jarðstreng, sem og lagningu jarðstrengs alla leiðina en tæknilegar hindranir gera það líklega ókleift að vera með svo langa jarðstrengskafla af þessari gerð. Til þess að leggja allar línur í jörð er íslenska flutningskerfið allt og veikbyggt.

Rannsókn á þverun Eyjafjarðar
Annað verkefni sem jarðstrengssérfræðingar Landsnets eru með til skoðunar er þverun Eyjafjarðar. Áhættumat hefur verið unnið vegna nálægðar flugvallarins og kynnti aðstoðarforstjóri Landsnets sýnileikagreiningu fyrir leiðarval loftlínu þar sem búið ert að taka tillit til áhættumatsins og draga úr sjónrænum áhrifum. Bendir greiningin til þess að sýnileiki línunnar verið takmarkaður frá byggðinni á Akureyri en jafnframt vinnur hópurinn nú að frummati á jarðstrengslögnum vegna þverunar fjarðarins. Nefndi Guðmundur að meðal þess sem þar þyrfti að huga að væri sú staðreynd að jarðstrengur yrði að mestu innan skipulags þéttbýlis og myndi því þvera lagnir og vegi, og vera í nálægð við íbúðarhúsnæði. Í Kjarnaskógi myndi þurfa að ryðja um 20 metra breiða strengleið og strengurinn myndi fara yfir óshólma Eyjafjarðar, sem eru á náttúruminjaskrá, og hugsanlega þyrfti að leggja þar nýjar vegslóðir, ef strengleiðin yrði önnur en meðfram gamla veginum. Í leysingum stendur vatn hátt í óshólmanum sem gæti torveldað viðgerð jarðstrengja. Hann sagði að einnig þyrfti að kanna áhrif segulsvið á flugið, í og við flugbrautina, gera ráðstafanir til að gera við strengi ef farið yrði undir flugbrautina og gera ráðstafanir vegna viðgerða við enda flugbrautarinnar. Þá þyrfti að athuga áhrif strengjanna á lífríkið Eyjafjarðarár og huga að sérstaklega að áhrifum lágs skammhlaupsafls á svæðinu á mögulega strengnotkun.

Glærukynning aðstoðarforstjóra Landsnets á vorfundi Samorku 14.5.2014.

Aftur í allar fréttir