Við erum á fullu í framkvæmdum og á síðustu vikum hafa fjölmörg ný flutningsvirki verið spennusett og tekin í rekstur, góður gangur er í Kröflulínu 3 og Hólasandslínu 3 og ný hringtenging á Austfjörðum var tekin í rekstur í sumar og þar með var stórum áfanga náð í styrkingu kerfisins á svæðinu.
Ný flutningsvirki víðs vegar um landið
Nýr 66 kV jarðstrengur milli Varmahlíðar og Sauðárkróks og ný 66 kV tengivirki í báðum endum voru spennusett í byrjun júní. Nýr rofareitur á Flúðum var spennusettur í lok maí og í byrjun júní var nýtt tengivirki á Hnappavöllum í Öræfum tekið í rekstur. Nýr 132 kV jarðstrengur á höfuðborgarsvæðinu, milli tengivirkisins A12 við Rauðavatn og Geitháls á Hólmsheiði var spennusettur í vor.
Loks var ný 132 kV hringtenging á Austfjörðum tekin í rekstur nú í sumar og þar með var stórum áfanga náð í styrkingu flutningskerfisins á svæðinu. Jafnframt er lagningu nýrrar jarðstrengstengingar milli Eskifjarðar og Norðfjarðar lokið.
Ný kynslóð byggðalínunnar
Framkvæmdir við Kröflulínu 3, milli Kröflu og Fljótsdals, eru á lokastigi og unnið er við strengingu leiðara þessa dagana. Áætlað er að spennusetja línuna í haust en auk þess er lokafrágangur í gangi og mun hann standa fram á næsta ár.
Vinna við Hólasandslínu 3, milli Akureyrar og Hólasands, er í fullum gangi. Tengingin samanstendur annars vegar af 10 km jarðstreng og unnið er að jarðvinnu og lagningu hans og þá er brú sem bera á strenginn yfir Glerá komin á sinn stað. Hins vegar er um að ræða 62 km loftlínu og er jarðvinna og slóðagerð rúmlega hálfnuð vegna loftlínuhlutans en vinna hófst ekki aftur af fullum krafti eftir vetrarhlé fyrr en um miðjan júní vegna veðurs. Þá hefur verktaki sett saman um fimmtung mastra og reising þeirra í gangi.
Á Rangárvöllum er nýtt tengivirki í byggingu og uppsetning rafbúnaðar hafin, jafnframt er unnið að byggingu tengivirkishúss á Hólasandi. Stefnt er að spennusetningu tengingarinnar fyrir lok ársins.
Aðrar framkvæmdir
Austan Þjórsár við Lækjartún er nýtt tengivirki í byggingu. Þá er jarðvinna og lagning Lækjartúnslínu 2, frá Lækjartúni að Hellu langt komin. Spennusetning er áætluð í ársbyrjun 2022.
Lagning nýs jarðstrengs yfir Hellisheiði Eystri, sem verður hluti Vopnafjarðarlínu 1, er nær hálfnuð og stefnt er að verklokum síðla árs.
Framkvæmdir við byggingu nýs tengivirkis í Hrútatungu sem leysa mun eldra virki af hólmi hófust í sumarbyrjun og áætlað er að virkið verði spennusett haustið 2022.
Loks er unnið að uppsetningu nýs aflrofa í tengivirkinu Vogaskeiði á Snæfellsnesi og er spennusetning áætluð í ágúst.