Fjölmörg framkvæmdaverkefni eru í gangi þessa dagana og spennusetningar nýrra virkja áætlaðar á næstu vikum.
Akureyri-Hólasandur:Fyrsti útdráttur í jarðstrengshluta Hólasandslínu 3 er áætlaður í vikunni. Jarðvinna og slóðagerð er nær hálfnuð vegna loftlínuhluta Hólasandslínu 3 og efni í yfirbyggingu er að berast til landsins. Á Rangárvöllum er unnið að byggingu tengivirkishúss og hefst uppsetning rafbúnaðar í vikunni. Stefnt er að spennusetningu tengingarinnar fyrir lok ársins.
Krafla-Fljótsdalur:
Í byrjun apríl hófst vinna á ný eftir vetrarhlé við Kröflulínu 3, jafnt við snjómokstur, samsetningu mastra og strengingu leiðara. Nú eru 320 möstur (af 328) samsett og 316 reist og búið að strengja 113 í möstur. Línan verður spennusett í sumar en nánari tímasetning mun ráðast af veðurfari og snjóalögum á svæðinu næstu vikur.
Sauðárkrókur - Varmahlíð:
Viðtaka er í gangi og áætlað er að spennusetja nýja tengingu um miðjan maí.
Austurland (spennuhækkun og Eskifjörður - Norðfjörður):
Framkvæmdum við spennuhækkun Austfjarðarhrings hefur verið frestað fram í byrjun júní vegna mikils álags hjá útgerðarfyrirtækjum á Austurlandi. Viðtökuprófanir og lokafrágangur eru þó í gangi og stefnt að spennusetningu virkjanna í áföngum í júní.
Lækjartún:
Jarðvinna og uppsteypa nýs tengivirkis við Lækjartún á Suðurlandi er í fullum gangi. Þá er jarðvinna og lagning Lækjartúnslínu 2 komin vel á veg. Spennusetning er áætluð í ársbyrjun 2022.
Hnappavellir:
Spennusetning á nýju tengivirki á Hnappavöllum í Öræfum er áætluð upp úr miðjum maí.
Rauðavatnslína 1:
Unnið er að breytingum á rofareit á Geithálsi vegna nýrrar jarðstrengstengingar milli tengivirkisins A12 við Rauðavatn og Geithálss en lagningu strengsins er lokið. Stefnt er að spennusetningu strengsins um miðjan maí.
Flúðir:
Nýr rofareitur á Flúðum verður spennusettur í maí.
Vogaskeið:
Vinna er að hefjast á í tengivirkinu Vogaskeiði við uppsetningu nýs aflrofa og er spennusetning áætluð í júlí.
Vopnafjarðarlína 1:
Framkvæmdir við nýjan jarðstreng yfir Hellisheiði Eystri munu hefjast nú í byrjun sumars og stefnt er að verklokum síðla árs.
Hrútatunga:
Framkvæmdir við byggingu nýs tengivirkis í Hrútatungu munu hefjast nú í sumarbyrjun og áætlað er að virkið verði spennusett haustið 2022.