Iðnaðarráðherra hyggst á næstunni leggja fram á Alþingi frumvarp til laga um breytingu á raforkulögum sem ætlað er að treysta grundvöll og undirbúning kerfisáætlunar Landsnets um uppbyggingu flutningskerfis raforku.
Þetta kom fram í ræðu Ragnheiðar Elínar Árnadóttur iðnaðarráðherra á haustfundi Landsvirkjunar í vikunni þar sem hún fór yfir þau fjölmörgu verkefni á sviði orkumála á Íslandi sem verða til umræðu í vetur.
Ekki hægt að búa við óbreytt ástand
Minnti ráðherra á mikilvægi þess að byggja upp flutnings- og dreifikerfi raforku og vísaði til nýlegrar skýrslu sem unnin var fyrir Landsnet. Þar kemur m.a. fram að ef ekki verði farið í frekari uppbyggingu flutningskerfis raforku á Íslandi muni það á næstu árum leiða af sér ýmsa erfiðleika hjá raforkunotendum og kosta þjóðfélagið milli 3 og 10 milljarða króna á ári, eða á bilinu 36 – 144 milljarða næsta aldarfjórðunginn.
„Við það ástand er ekki unnt að búa og hef ég þegar tekið þetta mál til umræðu í þinginu,“ sagði ráðherra og boðaði að á næstunni muni hún leggja fram lagafrumvarp sem ætlað sé „að treysta grundvöll og undirbúning kerfisáætlunar Landsnets um uppbyggingu flutningskerfis raforku.“
Stefnumótun um lagningu jarðstrengja á borði alþingismanna
Þá hefur iðnaðarráðherra lagt fram til umfjöllunar og afgreiðslu á Alþingi skýrslu nefndar um mótun stefnu um lagningu raflína í jörð. Í formála skýrslunnar segir ráðherra það sína skoðun „að nauðsynlegt sé að stjórnvöld móti skýra stefnu varðandi lagningu raflína í jörð og framtíðaruppbyggingu flutningskerfis raforku.“ Skýrslan sé lögð fram til almennrar umræðu á Alþingi til undirbúnings þeirrar stefnumótunar.