GARPUR í tímariti Háskólans í Reykjavík


01.10.2013

Framkvæmd

Fjallað er um rannsóknarverkefnið GARPUR, sem á dögunum 1,2 milljarða styrk úr 7. rammaáætlun Evrópusambandsins, í nýjasta tölublaði tímarits Háskólans í Reykjavík en skólinn og Landsnet standa að verkefninu ásamt öðrum evrópskum háskólum, rannsóknarstofnunum og raforkuflutningsfyrirtækjum.

Tímarit HR greinin er á síðu 38.

GARPUR er fjögurra ára rannsóknarverkefni, byggt á íslenskri hugmynd, en meginmarkmið þess er að bylta gildandi aðferðafræði við áreiðanleikaútreikninga raforkuflutningskerfa.

Verkefnið hófst formlega í liðinni viku í Þrándheimi í Noregi með upphafsfundi þar sem verkhlutastjórnendur kynntu þá 11 verkhluta sem rannsóknin samanstendur af og áherslur í vinnunni framundan. Fundurinn hófst með kynningu Petter Støa, aðstoðarforstjóra rannsókna hjá SINTEF Energy, sem lagði áherslu á mikilvægi verkefnisins í samhengi við þróun orkumála, bæði í Evrópu og alþjóðlega. Gunnar G. Løvås, framkvæmdastjóri áætlana og samfélagsmála hjá STATNETT í Noregi, tók í sama streng og áréttaði að rafmagn væri sífellt mikilvægari orkumiðill í nútímasamfélagi og því væru áherslur þeirra um áreiðanleika í rekstri raforkukerfisins stöðugt að aukast.

Kom skýrt fram á fundinum að það eru sameiginlegir hagsmunir flutningsfyrirtækja raforku að verkefnið leiði til nýrra og breyttra aðferða við áreiðanleikagreiningu raforkukerfa. Jafnframt er ljóst eftir þennan fund að áhugi háskóla og rannsóknarstofnana er mikill að leggja verkefninu lið.

Aftur í allar fréttir