Gleðilega hátíð


22.12.2016

Framkvæmd

Á Þorláksmessu verða skrifstofur Landsnets lokaðar. Við óskum landsmönnum öllum bjartrar og notalegrar hátíðar og skínandi góðs nýs árs - við erum á vaktinni og fylgjumst vel með raforkukerfinu yfir jólin.

Í ár bjóðum við hjá Landsneti upp á jólasögu í jólakveðjunni okkar - sögu sem er ætlað að vekja upp minningar. Njótið sögunnar og alls sem er. Gleðileg jól.

Mamma fann enn fleiri kerti í skápnum, kveikti á þeim og raðaði hér og þar í stofunni.

„Þetta getur gerst þegar allir kveikja á eldavélunum á sama tíma,“ hafði pabbi sagt um leið og hann reif af sér svuntuna og snaraði úlpunni yfir búrgundarrauðu peysuna og fyndna jólabindið.

Þótt pabbi væri farinn fannst Völu kyrrðin bara notaleg. Hún sat við gluggann með umslagið af nýju jólaplötunni hennar Kötlu Maríu í höndunum og rýndi inn í myrkrið sem hafði lagst yfir hverfið. Gegnum fjúkið sá hún að daufum kertaljósum fjölgaði í gluggunum í götunni.

„Hvað ef rafmagnið kemst aldrei aftur á?“ spurði hún.

„Ja, þá verður þetta bara eins og jólin þegar við afi þinn vorum lítil,“ sagði amma hennar brosandi. „Við gefum hvert öðru kerti í jólagjöf og sjóðum kjötið á hlóðum.“

„Eða grillum!“ sagði Vala stundarhátt. „Já, auðvitað,“ sagði mamma hennar. „Ég hef aldrei smakkað grillað hangikjöt, en veistu, ég held að pabbi þinn og vinnuhópurinn hans verði enga stund að koma rafmagninu á aftur.“

Afi hnussaði aðeins í skeggið, barði pípunni í öskubakkann og sagði flissandi: „Já, blessað rafmagnið. Ég held samt að hann tengdasonur minn hafi bara gaman af þessu, að bruna á jeppanum í gegnum skaflana þegar engum öðrum dettur í hug að vera á ferli.“

Mamma kinkaði kolli og hvíslaði brosandi að Völu: „Verst hvað pabbi þinn verður rosalega montinn af því að hafa bjargað jólunum fyrir alla!“

Um leið og hún sleppti orðinu kviknuðu ljósin og Katla María byrjaði að syngja um jólagjöfina sína. Smám saman fylltist íbúðin enn á ný af sætum ilmi af hamborgarhrygg og bjarminn af jólatrénu virtist enn skærari en áður. Nú var pabbi á leiðinni heim.

 

 

Aftur í allar fréttir