Framkvæmdir við nýtt tengivirki Landsnets á Ísafirði ganga vel og stefnt að því að það verði komið í gagnið um mitt næsta sumar. Verkefnið er unnið í samvinnu við Orkubú Vestfjarða og er áætlaður heildarkostnaður við það um hálfur milljarður króna.
Samið var við Vestfirska verktaka um byggingarframkvæmdir og miðar þeim vel en sjö manns eru að jafnaði að störfum á byggingarsvæðinu á Skeið sex daga vikunnar, 10 tíma á dag. Nýlega var lokið við að steypa sökkla og plötu og vinna við uppslátt á veggjum er vel á veg komin. Öll steypuvinnu á að vera búin fyrir lok októbermánaðar og þá tekur við frágangur utanhúss og á þaki. Miðað er við að húsið verði tilbúið fyrir uppsetningu háspennubúnaðar um miðjan febrúar á næsta ári, prófanir á búnaði geti hafist í maí og að tengivirkið verði tekið í gagnið í júnímánuði.Flutning lokið á Ísafjarðarlínu 1
Samhliða framkvæmdum við tengivirkið er Landsnet að leggja tvo 600 metra 66 kV jarðstrengi meðfram Skutulsfjarðarbraut, frá Seljalandi að tengivirkinu. Þegar er búið að ganga frá ídráttarrörum og laga rask á gangbrautum og götum en áætlað er að strenglagningunni sjálfri verði lokið um miðjan næsta mánuð.
Þá hefur Landsnet nýlokið færslu á Ísafjarðarlínu 1, 66 kV jarðstreng úr hlíðinni fyrir ofan byggðina, niður að Skutulsfjarðarbraut. Flytja þurfti strenginn vegna fyrirhugaðra snjóflóðavarna í hlíðinni. Nýi strengurinn er um tveggja km langur og liggur frá Engi, innst í byggðinni, að núverandi tengivirki Landsnets í Stórurð sem einnig þarf að víkja vegna fyrirhugaðs ofanflóðavarnargarðs. Byggingin og búnaðurinn í tengivirkinu í Stórurð eru frá 1980 og því kominn tími á endurnýjun. Verður það fjarlægt næsta sumar þegar nýja tengivirkið á Skeið kemst í gagnið.
Gámaþjónusta Vestfjarða hefur verið verktaki við strenglagnir, bæði fyrir Landsnet og Orkubú Vestfjarða, og mun annast strenglögnina frá Seljalandi að tengivirkinu.