Öllum fyrirvörum vegna samkomulags um raforkuflutninga fyrir kísilver United Silicon í Helguvík hefur nú verið aflétt. Hönnun og undirbúningur framkvæmda fer nú á fullan skrið hjá Landsneti og er miðað við að orkuafhending hefjist í febrúar 2016. Áætlaður framkvæmdakostnaður er 1,3 milljarðar króna.
Samkomulag við United Silicon um raforkuflutningana var undirritað 19. mars 2014 með ýmsum fyrirvörum sem aflétt var í dag með formlegri samþykkt stjórnar Landsnets um að ráðast í verkið. Samkvæmt því skal Landsnet koma á orkuflutningi til kísilvers United Silicon með tengingu við meginflutningskerfið á Fitjum á Reykjanesi og á orkuafhending að hefjast í febrúar 2016. Gert er ráð fyrir að starfsemi kísilversins verði komin á fullan skrið tveimur mánuðum síðar en áætluð aflþörf verksmiðjunnar er 35 megavött (MW) til að byrja með.Framkvæmdir á fullan skrið í árbyrjun 2015
Hjá Landsneti hefur á undanförnum árum verið unnið að undirbúningi tengingar iðnaðarsvæðisins í Helguvík við raforkukerfið og með byggingu Suðurnesjalínu 2, sem nú hyllir undir, gjörbreytist afhendingaröryggi raforku á Reykjanesi. Strax verður hafist handa við undirbúning og hönnun tengingar kísilvers United Silicon og ráðgert að framkvæmdir fari á fullan skrið í byrjun næsta árs. Þar er um að ræða lagningu níu km langs 132 kílóvolta (kV) jarðstrengs frá aðveitustöð Landsnets á Fitjum að nýju tengivirki sem byggt verður við Helguvík og fengið hefur nafnið Stakkur. Nýja tengivirkið, sem verður yfirbyggt eins og öll ný tengivirki Landsnets, verður með háspennubúnað fyrir 132 kV og 33 kV spennu.
Framkvæmdakostnaður Landsnets vegna tengingar kísilvers United Silicon við meginflutningskerfið er áætlaður um 1,3 milljarðar króna.
Kortið sýnir legu jarðstrengsins frá Fitjum að nýju tengivirki Landsnets við Helguvík.