Helstu sérfræðingar heims ræða orkuöryggi á ráðstefnu Háskólans í Reykjavík


13.10.2015

Framkvæmd

Íris Baldursdóttir, framkvæmdastjóri kerfisstjórnunarsviðs Landsnets, heldur erindi á ráðstefnu Háskólans í Reykjavík um orkuöryggi á Íslandi í alþjóðlegu samhengi fimmtudaginn 15. október nk., ásamt helstu sérfræðingum MIT, Harvard og Tufts háskólanna, Brookings-stofnunarinnar, Háskólans í Reykjavík og Landsvirkjunar.

Ráðstefnan ber titilinn „Hvernig tryggjum við orkuöryggi til framtíðar?“ og hefst kl. 13:30. Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, ávarpar ráðstefnuna.

Á ráðstefnunni verður m.a. kynnt nýtt og viðamikið samstarfsverkefni MIT-háskólans í Bandaríkjunum, Landsvirkjunar, Landsnets og Orkustofnunar um orkuöryggi á Íslandi. Fjallað verður um áhrif tenginga raforkukerfa á milli landa og mismunandi orkuvinnslu á orkuöryggi. Einnig verður rætt hvort og hvernig þurfi að styrkja flutningskerfi raforku hér á landi og hver beri ábyrgð á að viðhalda orkuöryggi þegar opinber orkufyrirtæki eru rekin á viðskiptalegum grunni.

Orkuöryggi er mikilvægt alþjóðlegt viðfangsefni sem hefur hlotið aukna athygli hér á landi á undanförnum misserum. Aðstæður hér eru um margt mjög sérstakar þegar kemur að orkuöryggi. Nær öll orka sem notuð er til rafmagnsframleiðslu og húshitunar er endurnýjanleg, sem er einstakt á heimsvísu. Markaðurinn er einangraður frá öðrum kerfum, sem m.a. veldur því að framleiðslugetan þarf ávallt að vera töluvert umfram notkun, til að unnt sé að mæta sveiflum í notkun og framleiðslu. Landið er strjálbýlt og flytja þarf orku langar leiðir frá vinnslustað.

Í alþjóðlegu samhengi tengist umræða um orkuöryggi meðal annars því hvernig hægt er að auka notkun endurnýjanlega orkugjafa á sem bestan hátt, án þess að stefna orkuöryggi í hættu, því sólin skín ekki alltaf og vindurinn blæs ekki stöðugt. Sveiflur í orkuframleiðslu aukast því með aukinni notkun þessara orkugjafa, samhliða auknum sveiflum í notkun. Annað hvort þarf því að finna hagkvæmar leiðir til að geyma orku eða auka möguleika á að flytja hana um langan veg á öruggan hátt. Orkuöryggismál eru einnig nátengd almennri umræðu um uppbyggingu innviða samfélaga, lífsgæði borgaranna og varnar- og öryggismál.

Ráðstefnan er haldin í tengslum við Arctic Circle Assembly og í samvinnu við Landsnet og Landsvirkjun. Aðgangur er ókeypis og allir eru velkomnir. Ráðstefnan fer fram á ensku.

Hægt verður að fylgjast með ráðstefnunni í beinni útsendingu á slóðinni:  https://livestream.com/ru/energysecurity



Dagskrá:

Kl. 13:30

Setning fundar - Dr. Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík

Ávarp - Dr. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands

The Challenge of Energy Security Supply in Iceland - Dr. Ignacio Pérez -Arriaga, prófessor við MIT-háskóla

The Future of Global Energy Security - Dr. Charles Ebinger, fyrrum forstöðumaður Brookings Energy Initiative hjá Brookings Institution

Iceland as an Isolated Energy System - Dr. Óli Grétar Blöndal Sveinsson, framkvæmdastjóri rannsókna og þróunar hjá Landsvirkjun

Intermittent Renewables and Reliability of Electricity Supply - Dr. Friðrik Már Baldursson, prófessor við Háskólann í Reykjavík

Energy Security, Climate and the Media: Improving Global Communication - Cristine Russell, Environment and Natural Resources Program, Harvard Kennedy School of Government

Aspects and Measures in the Area of Security of Electric Supply - Íris Baldursdóttir, framkvæmdastjóri kerfisstjórnunarsviðs hjá Landsneti

Is the Renewable Energy Transformation Possible and What Would it Mean? - Dr. William Moomaw, prófessor við Fletcher School við Tufts-háskóla

Fundarstjóri: Halla Hrund Logadóttir, framkvæmdastjóri Íslenska orkuháskólans við HR


Aftur í allar fréttir