Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði í morgun kröfu Landverndar um að núgildandi kerfisáætlun Landsnets, kerfisáætlun 2014-2023, yrði dæmd ólögmæt og felld úr gildi.
Landvernd höfðaði málið á hendur Landsneti með stefnu dagsettri 27. janúar 2015. Þar var þess krafist að kerfisáætlun 2014-2023, sem samþykkt var af stjórn Landsnets þann 25. september 2014 og birt á vef fyrirtækisins 10. október saman ár, yrði dæmd ólögmæt og felld úr gildi. Til vara krafðist Landvernd þess að viðurkennt yrði að Landsneti væri skylt, við gerð áætlana um uppbyggingu flutningskerfis fyrir rafmagn á Íslandi, að hafa hliðsjón af þeim athugasemdum sem hafa borist við tillögu að slíkri áætlun og umhverfisskýrslu og skilgreina, lýsa og meta lagningu jarðstrengja sem valkostar í áætlunum sínum.
Taldi Landvernd að lög hefðu verið brotin þegar áætlunin var afgreidd, m.a. af því að Landsnet hefði ekki tekið afstöðu til athugasemda almennings þegar fyrirtækið afgreiddi kerfisáætlunina. Landsnet taldi hins vegar að það hefði uppfyllt lagaskilyrði og tekið tillit til allra athugasemda þegar áætlunin var afgreidd. Krafðist fyrirtækið sýknu af öllum kröfum Landverndar og að málinu yrði vísað frá dómi.
Kröfu Landsnets um frávísun var hafnað með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 4. júní sl. en í dómi héraðsdóms í morgun var Landsnet hins vegar sýknað af kröfu Landverndar um að viðurkennt væri að kerfisáætlunin væri ólögmæt og hún felld úr gildi. Jafnframt var varakröfu stefnanda vísað frá.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur (pdf)