segir Halldór Halldórsson öryggisstjórinn okkar í netspjalli dagsins en hann segir Landsnet tilbúið að vinna undir þessum kringumstæðum eins lengi og þörf er á.
Halldór hefur staðið í ströngu undanfarnar vikur og mánuði við að undirbúa og tryggja samfelldan rekstur hjá Landsneti út frá þeirri áhættu sem við stöndum frammi fyrir. Neyðaræfingar undanfarinna ára eru að skila sér í öflugum ferlum og verklagi sem unnið er eftir með öryggi starfsfólks og viðskiptavina að leiðarljósi.
Hann segir það hafa komið berlega í ljós í vetur hve mikill mannauður sé hjá fyrirtækinu en við höfum verið með starfsemina hjá Landsneti á óvissu- og neyðarstigi í bráðum fjóra mánuði, fyrst vegna óveðurs og jarðhræringa en nú vegna veirunnar.
„Það er mjög mikilvægt að tryggja til framtíðar að reynslan sem hefur skapast við þessar aðstæður í vetur efli fyrirtækið. Reynslan hefur gert okkur kleift að stjórna fyrirtækinu við breyttar og meira krefjandi aðstæður en áður og við erum tilbúin að vinna undir þessum kringumstæðum svo lengi sem þurfa þykir.“
Aðspurður hvort það sé hægt að æfa allar kringumstæður segir hann að svo sé auðvitað ekki en æfingar hjálpi til og bendir á sem dæmi að á síðasta ári hafi Landsnet ásamt sóttvarnarlækni og sóttvarnarteyminu skipulagt æfingu þar sem meira en helmingur starfsfólks var veikt við erfiðar kringumstæður í flutningskerfinu.
„Það er auðvitað aldrei hægt að skipuleggja og halda æfingar með sviðsmyndir af öllu því sem raunverulega gerist. Samt er það svo að við sem fyrirtæki höfum undanfarin ár æft og sett upp mögulegar krísur sem geta komið upp í raforkukerfinu. Á síðasta ári skipulögðum við neyðaræfingu innan raforkukerfisins og fengum til liðs við okkur sóttvarnarlæknir og sóttvarnarteymi Landspítalans. Í þeirri sviðmynd sem æfð var þá vorum við að reka flutningkerfið í þeim aðstæðum að yfir helmingur af starfsfólkinu okkar hafði veikst á sama tíma og við fengum eldgos sem ógnaði raforkukerfinu. Sú æfing gekk mjög vel og lagði grunninn að þeirri viðbragðsáætlun sem við erum að vinna með í dag. Svona æfingar skipta sköpum en ástandið sem við erum að glíma við í dag er auðvitað það sem við lærum svo mest af. Það er mikilvægt að setjast niður þegar þessu er lokið til að draga lærdóm af því sem gekk vel og hvað hefði mátt gera betur eða öðruvísi. Þannig gerum við gott fyrirtæki eins og Landsnet enn betra og tryggjum um leið það hlutverk sem við höfum sem einn af lykilinnviðum landsins“ segir Halldór um leið og hann kveður. Framundan hjá honum í dag eru fjölmargir fjarfundir m.a. bæði með neyðarstjórn Landsnets og innan orkugeirans.