Hver er staðan í þinni heimabyggð ?


13.05.2019

Framkvæmd

Landsnet hefur sett í opið umsagnarferli tillögu að kerfisáætlun um uppbyggingu flutningskerfis raforku fyrir tímabilið 2019-2028. ​Umsagnarferlið, sem stendur til 24. júní, er tækifæri fyrir alla sem áhuga hafa á uppbyggingu raforkukerfisins, að koma að gerð áætlunarinnar og eru allir hvattir til að kynna sér innihald og koma umsögnum á framfæri.

Að þessu sinni er kerfisáætlun gefin út sem vefútgáfa og hefur af því tilefni fengið sitt eigið vefsvæði á www.landsnet.is . Þar má finna þrjá meginhluta áætlunarinnar, langtímaáætlun um þróun meginflutningskerfisins, framkvæmdaáætlun næstu þriggja ára og umhverfisskýrslu. Einnig má finna á vefnum fylgiskjöl og prentvænar útgáfur af skýrslunum. Vefútgáfa Kerfisáætlunar er auðlesin og virkar vel hvort sem er á tölvum eða snjallsímum.

Smelltu hér.

Breyttir tímar – ný nálgun

Helstu breytingar frá síðustu áætlun eru m.a. að nú er kynntur nýr valkostur um uppbyggingu meginflutningskerfisins. Hann snýst um það að samtengja ekki landshluta og að reka flutningskerfið sem tvær sterkar eyjar með veikum tengingum sín á milli. Kostir og gallar valkostarins hafa verið greindir út frá tæknilegum, fjárhagslegum og umhverfislegum sjónarhornum og bornir saman við aðra valkosti á langtímaáætlun.

Eins má nefna umfjöllun um áhrif mögulegrar vindorku á aflflæði í meginflutningskerfinu, en vaxandi áhugi virðist vera fyrir virkjun vindsins á Íslandi. Niðurstaða greininga sýnir að aukið vægi vindorku muni setja auknar kröfur á flutningskerfið og mögulega breyta áherslum í uppbyggingu kerfisins.

Búið er að auka upplýsingagjöf um landshlutakerfin með ítarlegri lýsingum á öllum svæðisbundin flutningskerfunum. Sú umfjöllun fellur vel að áhersluatriðum um bætingu á afhendingaröryggi, sem m.a. má finna í stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfisins sem samþykkt var síðasta sumar.

Hagræn umfjöllun hefur verið bætt til muna, bæði hvað varðar þjóðhagslega hagkvæmni þess að styrkja kerfið og eins mat á áhrifum kerfisáætlunar á flutningskostnað. Gerður hefur verið efnahagslegur samanburður á því að samtengja landshluta og að samtengja ekki og eins hvort að tímasetning samtengingar skipti máli í efnahagslegu tilliti.

Önnur nýjung snýr að mati á valkostum. Í umhverfismatinu hefur verið tekið í gagnið nýtt vægismat umhverfisþátta, sem ætlað er að gefa skýrari mynd af umhverfisáhrifum einstakra framkvæmda og valkosta. Eins hefur verið skilgreind ný aðferðafræði við mat á tæknilegum mælikvörðum sem ætlað er að leggja mat á það hvernig framkvæmdir og- eða valkostir uppfylla þau markmið sem nefnd eru í raforkulögum um uppbyggingu raforkukerfisins. Aðferðafræðin er mikil breyting frá því sem áður var, en eitt af markmiðum með skilgreiningu á nýrri aðferðafræði var að auka gagnsæi við mat á valkostum í kerfisáætlun. Lýsingu á aðferðafræðinni má finna í skýrslu á vefsvæði kerfisáætlunar.

Ný verkefni á framkvæmdaáætlun

Í framkvæmdaáætlun má finna nokkur ný verkefni. Má þar nefna nýtt tengivirki á Suðurlandi, ásamt jarðstreng til Hellu, sem ætlað er að styrka fæðingu inn á Suðurlandskerfið. Eins er kominn á framkvæmdaáætlun nýr afhendingarstaður á meginflutningskerfinu í Ísafjarðardjúpi. Tilgangur afhendingarstaðarins er að stuðla að bættu afhendingaröryggi á Vestfjörðum og auka möguleika á nýrri orkuvinnslu á svæðinu. Önnur ný verkefni á framkvæmdaáætlun, snúa annað hvort að bætingu á afhendingaröryggi eða endurnýjun virkja sem komin eru á aldur.

Taktu þátt í samtalinu

Á fyrri hluta umsagnartímans verða haldnir opnir kynningarfundir um efni áætlunarinnar í Reykjavík, á Akureyri, í Neskaupstað, í Grundarfirði, á Hellu, í Vestmannaeyjum, á Ísafirði og á Sauðárkróki þar sem farið verður yfir innihald áætlunarinnar.

Ábendingar og athugasemdir við kerfisáætlun og um umhverfisskýrsluna skal senda til Landsnets á netfangið landsnet@landsnet.is eða á heimilisfangið Gylfaflöt 9, 112 Reykjavík, merkt athugasemdir við kerfisáætlun 2019-2028.


Frestur til að gera athugasemdir eða koma með ábendingar við tillögurnar er til og með 24. júní 2019. Það er von Landsnets að flestir kynni sér efni kerfisáætlunar og umhverfisskýrslu.

Aftur í allar fréttir