Undanfarin misseri hefur öryggi raforkukerfa verið mikið i umræðunni.
Mikið hefur verið fjallað um alvarlegar afleiðingar þess að raforkukerfið í Texas hrundi í óvenjumikilli kuldatíð. Fólk hefur frosið í hel og aðrir fengu raforkureikninga upp á hundruðir þúsunda króna. Sem betur fer hefur ekkert slíkt gerst hér en hvernig gat þetta gerst?
Svarið er ekkert flókið og þetta hefði því miður ekkert þurft að koma sérstaklega á óvart. Fjárfestingar og styrkingar á flutningskerfinu, tengingar milli landshluta og önnur öryggisatriði voru vanrækt í sparnaðarskyni. Afleiðingin blasir nú við.
Hér á landi gilda sömu lögmál og sömu hugmyndir um sparnað eru háværar en iðulega undir yfirskyni samkeppnishæfni eða skilvirkni. Við hjá Landsneti höfum árum saman talað fyrir því að styrkja þurfi flutningskerfi raforku enda sé núverandi kerfi bæði gamalt og ófullnægjandi fyrir þarfir þjóðarinnar. Stjórnvöld eru sammála og samþykktar eru stefnur sem eru lagalega bindandi og eiga að ráða á þessu bót en samt er andstaðan hávær og verkefni tefjast, meðal annars vegna tafa í stjórnsýslu.
Óveður síðasta vetrar leiddu af sér útbreitt og langvarandi rafmagnsleysi og hefði auðveldlega getað orðið verra og var það var mat starfshóps um rekstrartruflanir að kostnaður við desemberóveðrið árið 2019 hafi verið tæpir 6 milljarðar króna. Seinna þann sama vetur bættust við janúaróveðrin sem slógu út Suðurlandið, aftur með víðtæku og langvarandi rafmagnsleysi.
Meginflutningskerfið okkar er orðið gamalt og ræður ekki við þarfir nánustu framtíðar. Við þurfum að endurnýja það, bæði til að mæta aukinni þörf fyrir raforku og sérstaklega til að tryggja öryggi landsmanna. Afhendingaröryggi raforku er ekki smámál og því hefur lengi verið misskipt milli landshluta. Því verður að breyta. Það er beinlínis lögbundin skylda Landsnets.
Er verið að slá ryki í augu almennings?
Þrátt fyrir ofan talin rök og önnur sem renna stoðum undir augljósa þörf fyrir styrkingu kerfisins gengur hægt að þoka málum áfram. Undanfarna mánuði hefur mikið verið rætt um samkeppnishæfni flutningskerfisins á Íslandi. Sú umræða hefur ekki rist djúpt og nánast eingöngu snúist um hagsmuni nokkurra stórnotenda og kostnað við kerfið. Ekkert hefur verið fjallað um þörfina, öryggið eða landlægar aðstæður. Ekki hefur heldur farið mikið fyrir umræðu um lækkandi flutningskostnaði til stórnotenda undanfarinn áratug en grafið að neðan sýnir svo ekki verður um villst að flutningskostnaður stórnotenda hefur lækkað verulega að raungildi á undanförnum árum.
Myndin sýnir vísitölu flutningsgjalda til stórnotenda og vísitölu neysluverðs í bandaríkjadollar
Því verður ekki neitað að það kostar að bæta kerfið, ekkert er ókeypis í þeim efnum. En hvert er samhengi stærðanna? Það hlýtur að skipta öllu máli. Landsnet gefur á hverju ári út áætlanir um fjárfestingar sínar og styrkingar á kerfinu. Þar koma meðal annars fram áætlanir um gjaldskrárþróun út frá sviðsmyndum um raforkunotkun sem Orkustofnun gefur út.
Samkvæmt grunnsviðsmynd raforkuspár Orkustofnunnar, sem er mjög varfærin og gerir til dæmis ekki ráð fyrir neinni aukningu meðal stórnotenda, má gera ráð fyrir því að flutningskostnaður fyrir stórnotendur muni hækka tímabundið um minna en 1 USD/MWst áður en hann fer að lækka aftur. Það þýðir að flutningskostnaður mun haldast lægri en hann var árið 2013 en síðan þá hafði hann lækkað samfleytt fram til seinni hluta síðasta árs.
Til að setja þessa stærð, 1 USD/MWst, í samhengi er gott að skoða útflutningsverðmæti stórnotenda. Árið 2019 fluttu stórnotendur, að gagnaverum undanskildum, út vörur fyrir rúma 230 milljarðar króna og notuðu til þess 14 milljónir MWst. Tímabundin hækkun um 1 USD/MWst myndi því nema um 0,7% af útflutningsverðmætum þessara fyrirtækja.
Á að láta meiri hagsmuni víkja fyrir minni?
Nú þegar samhengi stærðanna liggur fyrir, er þá ekki rétt að spyrja sig hvort sú andstaða sem áætlanir okkar hjá Landsneti mæta sé skynsamleg? Við hjá Landsneti skiljum og styðjum kröfur um skilvirkni. Í því felst einmitt að byggja tímanlega kerfi sem uppfyllir kröfur almennings og fyrirtækja um land allt um aðgang að áreiðanlegi raforku.
Fyrirséð er að flutningskerfi raforku ræður að óbreyttu ekki við kröfur nánustu framtíðar. Kröfur um sparnað í stað uppbyggingar draga úr getu Íslands til að mæta rafvæðingu framtíðarinnar eins og orkuskiptum í samgöngum eða aukinni sjálfvirknivæðingu. Er þá skynsamlegt að setja raforkuöryggi almennings og allrar annarrar atvinnustarfsemi í annað sæti fyrir 0,7% af útflutningsvirði nokkurra fyrirtækja í nokkur ár?
Greiningar okkar hjá Landsneti hafa ítrekað sýnt fram á að áætlanir fyrirtækisins eru þjóðhagslega hagkvæmar og það hlýtur því að vera eðlilegt krafa að sérhagsmunir þeirra fáu stóru sem búa við bestu aðstöðuna í raforkukerfinu séu ekki látnir ráða för. Allir munu græða á því að hagsmunir almennings séu látnir ráða för. Við skulum ekki ganga svo hart að flutningskerfinu að við endum eins og Texas.
Jón Skafti Gestsson