Tillaga að nýrri kerfisáætlun Landsnets og umhverfisskýrslu hefur verið birt á vef Landsnets. Áætlunin sem ber titilinn Innviðirnir okkar – leiðin að rafvæddri framtíð er með töluvert breyttu sniði frá síðustu áætlun. Helstu breytingar snúa að forsenduhluta áætlunarinnar, aukinni umfjöllun um svæðisbundnu kerfin og jarðstrengi og meiri áhersla er lögð á loftslagsmál en áður . Einnig hefur hagræn umfjöllun um uppbyggingu kerfisins verið aukin til muna.
Nýjar sviðsmyndir
Í þeim tilgangi að styrkja forsendur kerfisáætlunar var ráðist í umfangsmikla þarfagreiningu þar sem möguleg þróun raforkumarkaðar á Íslandi var kortlögð í þeim tilgangi að ná fram skýrarri mynd af kröfum sem gera þarf til flutningskerfisins.
Niðurstaðan eru fjórar nýjar sviðsmyndir, frá raforkuspá til mögulegrar tengingar íslenska raforkukerfisins við Evrópu. Sviðsmyndirnar eru grunnforsendur fyrir þeim styrkingum á kerfinu sem lagðar eru fram í kerfisáætluninni.
Valkostir styrkinga – áhersla á jarðstrengsumræðu
Lagðar eru fram sömu meginleiðir og í síðustu áætlun og átta mismunandi valkostir skoðaðir. Umfjöllun um jarðstrengi hefur verið aukin til muna. Tveir nýjir valkostir eru teknir til umfjöllunar, einn sem snýr að jafnstraumstengingu yfir hálendið með jarðstreng alla leið og annar þar sem lögð er til hefðbundin flutningslína yfir hálendið með jarðstreng á 50 km kafla. Var sú leið kynnt sem útfærsla í síðustu áætlun en hefur nú fengið umfjöllun sem sér valkostur. Að auki er fyrir alla framlagða valkosti kynnt heildarvegalengd sem tæknilega mögulegt er að leggja sem jarðstreng á hverri einstakri línuleið og tekið tillit til þess við umhverfismatið.
Hagræn umfjöllun
Í áætluninni er lagt fram mat á þjóðhagslegri þýðingu uppbyggingar flutningskerfisins og metið hvaða áhrif valkostir hafa á gjaldskrár Landsnets. Við matið var horft til fjárfestinga sem fylgja mismunandi valkostum, mögulegum tímasetningum og flutningsaukningu sem fylgir hverri sviðsmynd fyrir sig. Niðurstaða matsins er forvitnileg og má þar sjá hver er þjóðhagslegur uppgreiðslutími mismunandi valkosta í kerfisáætlun út frá skilgreindum sviðsmyndum.
Umhverfisþættir
Í takt við umræðu um loftslagsmál hefur sú umfjöllun verið aukin. Búið er að framkvæma líftímagreiningu á öllum framkvæmdum sem tilheyra mismunandi valkostum. Þar má sjá hvert áætlað kolefnaspor verður yfir líftímann, allt frá efnisöflun, framleiðslu búnaðar, uppsetningu og förgun. Er niðurstaða greiningarinnar birt í umhverfisskýrslunni. Að sama skapi var unnin greining á því hvað felst í orkuskiptum sem mikið hafa verið í umræðunni að undanförnu. Niðurstaða þeirrar greiningar er birt í þemakafla umhverfisskýrslu og er einnig notuð við skilgreiningu á sviðsmyndinni Rafvætt samfélag.
Helstu breytingar á framkvæmdaáætlun
Einnig er lögð fram framkvæmdaáætlun þar sem verkefnum næstu þriggja ára er lýst. Helsta breytingin er að ákveðið hefur verið að færa framkvæmd línunnar á milli Akureyrar og Kröflu fram fyrir Blöndulínu 3 og er nú áætlað að sú framkvæmd hefjist árið 2019. Í stað þess lendir Blöndulína 3 utan við framkvæmdaáætlun að þessu sinni.
Niðurstaða valkostagreiningar
Hvað varðar langtímaáætlun um styrkingu meginflutninskerfisins voru fjórir af átta valkostum álitnir uppfylla markmið raforkulaga á fullnægjandi hátt. Niðurstaða Landsnets er því að leggja til að ráðist verði í framkvæmdir á þeim línuleiðum sem eru sameiginlegar þessum fjórum valkostum. Þessar framkvæmdir eru Krafla – Fljótsdalur, Akureyri - Krafla, Blanda- Akureyri og Geitháls-Brennimelur. Hvað varðar framkvæmdir sem ekki eru sameiginlegar framangreindum valkostum þ.e. hvort eigi að stefna á hálendisleiðina og þá riðstraums eða jafnstraumstengingu eða hvort eigi að fara byggðalínuleiðina og klára hringinn, telur Landsnet að mikilvægt sé að afla frekari gagna um áhrif þessara framkvæmda. Þannig nást fram betri upplýsingar um möguleg umhverfisáhrif og sterkari grunnur undir ákvarðanatöku um val á milli einstakra valkosta, útfærslur á þeim og mögulegar mótvægisaðgerðir.
Opinn kynningarfundur um kerfisáætlunina verður haldinn 29.nóvember kl. 09.00 á Nordica - dagskrá auglýst eftir helgi.