Jarðstrengjamál og framtíð flutningskerfisins í brennidepli á kynningarfundi Landsnets


18.03.2014

Framkvæmd

Í tengslum við aðalfund Landsnets 2014 verður að venju efnt til kynningarfundar um starfsemi fyrirtækisins og verður hann haldinn fimmtudaginn 20. mars, kl. 9-11:30 á Hilton Reykajvík Nordica. Allir eru velkomnir á fundinn þar sem fjallað verður um stöðu og framtíðaruppbyggingu flutningskerfis raforku á Íslandi, þar á meðal útfærslur sem geta komið til greina í jarðstrengjamálum auk þess sem sérfræðingar frá Danmörku og Noregi fjalla um stefnuna í jarðstrengjamálum í sínum heimalöndum.

Kynningarfundurinn hefst með ávarpi Ragnheiðar Elínar Árnadóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, og í framhaldinu fjallar Geir A. Gunnlaugsson, stjórnarformaður Landsnets, um áskoranir næstu ára í starfsemi Landsnets, s.s.hvaða breytingar þurfi að veða á rekstrarumhverfi fyrirtækisins til að auka hagkvæmni flutningskerfisins.

Rekstur raforkukerfisins - sem er óviðunandi í dag því aðgengi að öruggri raforku er háð búsetu - verður umfjöllunarefni Þórðar Guðmundssonar, forstjóra Landsnets. Hann kynnir einnig nútímalegri hönnun í gerð háspennumastra og tengivirkja fyrir Landsnet sem hefur það að markmiði að auka rekstraröryggi þessara mannvirkja og tryggja að þau falli betur að umhverfinu. Þá ræðir Guðmundur Ingi Ásmundsson, aðstoðarforstjóri Landsnets, um forgangsröðun framkvæmda hjá Landsneti næstu árin, með áherslu á mismunandi útfærslur sem gætu komið til greina varðandi lagningu jarðstrengja, út frá bæði umhverfislegum og kostnaðarlegum sjónarmiðum. Hann mun einnig fjalla um fyrirhugaða norður-suðurtenging yfir Sprengisand og kynna mismunandi valkosti sem þar eru til skoðunar, m.a. með tilliti til sýnileika og umhverfisáhrifa.

Jarðstrengjamál í Danmörku og Noregi
Tveir erlendir gestir flytja einnig erindi á fundinum. Annars vegar mun Tanja Midtsian, frá Orkustofnun Noregs (NVE), fjalla um stefnu Norðmanna í jarðstrengjamálum og hvernig sú stefnumótun var unnin. Hins vegar fjallar Jens Møller Birkebæk frá danska flutningsfyrirtækinu Energinet.dk, um stefnu Dana í jarðstrengjamálum en hin þéttbýla Danmörk er það land í heiminum sem gengið hefur hvað lengst í lagningu jarðstrengja.

Allir velkomnir
Allir eru velkomnir á kynningarfund Landsnets sem fer fram í stóra fundarsalnum á 1.hæð Hilton Reykjavík Nordica fimmtudaginn 20. mars. Áætlaður fundartími er frá 9:00 – 11:30 og er boðið upp á morgunhressingu fyrir fundinn og á meðan á honum stendur. Það er von Landsnets að sem flestir sjái sér fært að mæta og hlýða á erindin og taka þátt í umræðum að þeim loknum. Þeir sem komst ekki á fundinn geta fylgst með beinni útsendingu frá honum á heimasíðu Landsnets, www.landsnet.is

Þrívíddarmyndir af nýjum háspennumöstrum sem hönnuð hafa verið fyrir Landsnet og falla betur að íslensku umhverfi. Sýnidæmi um möstur á Sprengisandsleið og útjöfnunarstöð fyrir jarðstreng. Staðsetning mannvirkja á myndunum eru óháð fyrirhugaðri línuleið.

Aftur í allar fréttir