Jarðstrengur fellur ekki undir stefnu stjórnvalda


19.03.2021

Framkvæmd

Smá innlegg í umræðuna í kjölfar greinar Þorgerðar M. Þorbjarnardóttur formanns ungra umhverfissinna í Fréttablaðinu 18.mars.

Við hjá Landsneti höfum lengi talað fyrir nauðsyn þess að ráðast í framkvæmdir við Suðurnesjalínu 2 til að bæta afhendingaröryggi raforku á Suðurnesjum. Við teljum að flestir séu orðnir sammála um mikilvægi raforkuöryggis á Reykjanesi en skiptar skoðanir eru um valkostinn sem Landsnet hefur sótt um leyfi fyrir. Frá því umhverfismati Suðurnesjalínu 2 lauk hefur færst aukinn kraftur í jarðskjálftavirkni á Reykjanesinu og í kjölfarið höfum við lagt fram frekari  greiningar sem hafa sýnt fram á að loftlínukostur er öruggari kostur enn jarðstrengur á þessu svæði. 

Stefna stjórnvalda um lagningu raflína í meginflutningskerfinu er skýr, í henni eru m.a. gefin upp viðmið um hvar skuli meta jarðstrengi sem valkost. Þessi viðmið snúa að þéttbýli, flugöryggi, friðlýstum svæðum og náttúruverndarsvæðum vegna landslags. Ef raflína fer um þessi svæði, þá gilda viðmiðin um kostnað og hvenær möguleiki er að ráðast í kostnaðarsamari framkvæmdir en loftlínu. Eini hluti Suðurnesjalínu 2 sem fellur innan þessara viðmiða er innan þéttbýlis Hafnarfjarðar, aðrir hlutar línunnar falla ekki undir viðmiðin í stefnu stjórnvalda.

Í umhverfismati Suðurnesjalínu 2 var lagt sambærilegt mat á nokkra valkosti, m.a. jarðstrengsvalkosti sem féllu ekki undir áður nefnd viðmið í stefnu stjórnvalda.  Markmið umhverfismatsins var að fá fram samanburð og niðurstöðu um umhverfisáhrif allra valkosta. Þegar nú liggur fyrir þessi niðurstaða telur Landsnet að umhverfislegur ávinningur jarðstrengsvalkosta sé alls ekki það mikill að hann geti vegið upp kostnaðarmun þeirra, sér í lagi þar sem stærstur hluti línuleiðar er utan framgreindra viðmiða í stefnu stjórnvalda. Að auki teljum við að ekki sé rökrétt að velja dýrari kost sem að auki hefur í för með sér minna afhendingaröryggi fyrir notendur á svæðinu. 

Við höfum átt víðtækt samtal um verkefnið við almenning og hagsmunaaðila, sem er viðbót við lögbundið samráð. Ef þú vilt vita meira um verkefnið, stefnu stjórnvalda og leiðina sem var valin þá er hægt að nálgast upplýsingar á https://sn2.landsnet.is 
Aftur í allar fréttir