Í kjölfar synjunar Orkustofnunar á Kerfisáætlun Landsnet fyrir árin 2016 – 2025 hefur Landsnet nú endurmetið framkvæmdaáætlun fyrirtækisins. Niðurstaða viðræðna milli Landsnets og Orkustofnunar um stöðuna sem komin er upp er sú að Kerfisáætlun 2015-2024 sé enn í gildi og þau verkefni sem hún inniheldur séu með samþykki Orkustofnunar.
Þau verkefni sem eru í uppnámi eru þau verkefni sem voru fyrst kynnt í framkvæmdaráætlun kerfisáætlunar 2016-2025 og átti að ráðast í á þessu ári. Það eru verkefni sem snúa að lagningu jarðstrengs í Dýrafjarðargöng og byggingu nýs afhendingarstaðar í Öræfum. Á þessu stigi liggur ekki fyrir með hvaða hætti brugðist verður við til að leysa stöðuna sem upp er komin en viðræðum við Orkustofnun og Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið verður haldið áfram um næstu skref og framhald verkefnanna.Ítarlegasta kerfisáætlun Landsnets
Kerfisáætlun áranna 2016-2025 er mun ítarlegri og kostnaðarsamari en fyrri áætlanir sem gerðar hafa verið hjá Landsneti. Áætlunin er unnin að evrópskri fyrirmynd og stenst fyllilega samanburð við kerfisáætlanir flutningsfyrirtækja í Evrópu.
Vegna umfangs áætlunarinnar tókst ekki að ljúka henni á tilsettum tíma en vinnsla hennar hefur tekið á annað ár. Í þeirri vinnu hefur verið lögð mikil áhersla á víðtækt samráð við hagsmunaaðila. Í ljósi umfangs slíkra áætlana, hefur víða erlendis verið farið þá leið að gefa út kerfisáætlanir annað hvert ár og þess gætt að kröfum um upplýsingar séu í takt við þarfir þeirra sem taka ákvarðanir út frá áætluninni.
Landsnet hefur fengið ábendingar um að sambærilegt fyrirkomulag gæti hentað hér á landi frá hagsmunaaðilum við vinnslu áætlunarinnar og tekur undir það sjónarmið