Ný tenging vegna vindmylluhugmynda komin inn í áætlunina.
Í framhaldi af umfangsmiklu kynningar- og samráðsferli hefur kerfisáætlun Landsnets 2019-2028 verið send Orkustofnun til samþykktar. Ferlið einkenndist af umfangsmiklu samráði við sveitarfélög, raforkuframleiðendur og –kaupendur, fagstofnanir, félagasamtök og almenning. Alls bárust 19 ábendingar sem öllum hefur verið svarað og birtar hafa verið á www.landsnet.is.Athugasemdir, ábendingar og umsagnir eins og þær sem bárust við kerfisáætlun í ár eru mikilvægar fyrir mótun áætlunarinnar og hafa í kjölfarið verið gerðar breytingar, m.a. á langtímaáætlun, en ákveðið hefur verið að bæta við tengingu á langtímaáætlun sem mun koma á milli Hvalfjarðar og Hrútatungu. Um er að ræða breytingu frá því að tillaga að kerfisáætlun var kynnt í maí 2019 en ástæða þess að línan hefur verið sett á áætlun er annars vegar staðfesting á fyrri niðurstöðum kerfisgreininga, sem sýna að flæði um línuleiðina muni fara hratt vaxandi, og hins vegar sú að koma til móts við hugmyndir um uppbyggingu vindorkukosta á Vesturlandi.
Ný lína frá Hvalfirði í Hrútafjörð
Sverrir Jan Norðfjörð framkvæmdastjóri þróunar- og tæknisviðs Landsnets segir að samráðsferli eins og þetta skipti miklu máli.
„Tilgangurinn með opnu samráðsferli er meðal annars að bæta áætlunargerðina og því er ekki óeðlilegt að áætlunin taki breytingum að loknu samráðinu. Við fáum ábendingar um aukna vindorkunýtingu til framtíðar og það á svæðum sem hingað til hafa ekki verið álitin orkuvinnslusvæði. Það er ljóst að meginflutningskerfið er ekki reiðubúið að taka við miklu magni af viðbættu afli frá vindorkugörðum og til að bregðast við þessu var ákveðið að flýta verulega á 10 ára áætlun línulögn frá Hvalfirði í Hrútafjörð.“