Á meðan niðurstaða fæst ekki í stefnumótun í jarðstrengjamálum er þess ekki að vænta að frekari uppbygging hefjist á næstunni í meginflutningskerfis raforku á Íslandi. Brýnt er því að stjórnvöld marki sem allra fyrst stefnu sem Landsnet getur haft að leiðarljósi í þessu mikilvæga máli, því rekstur raforkukerfisins er orðinn óviðunandi og aðgangur að öruggri raforku í háður búsetu.
Þetta er meðal þess sem fram kom á almennum kynningarfundi sem fram fór í dag, samhliða aðalfundi Landsnets. Yfir 300 gestir sóttu fundinn og fjölmargir fylgdust einnig með honum í beinni útsendingu. Upptaka er nú aðgengileg á heimasíðu Landsnets.Skýrt kom fram á fundinum að Landsnet er ekki andsnúið jarðstrengjum - og hefur enga hagsmuni af að leggja ekki jarðstrengi – en stjórnendur fyrirtækisins telja sig hins vegar bundna af ákvæðum raforkulaga um að „byggja flutningskerfið upp á eins hagkvæman hátt og frekast er unnt.“ Loftlínur eru enn sem komið er hagkvæmari en jarðstrengir á hærri spennum og því kallar Landsnet, eins og aðrir hagsmunaðilar, eftir stefnumótun stjórnvalda í þessu mikilvæga máli svo horfa megi til framtíðar í uppbyggingu flutningskerfisins.
Áhrif jarðstrengjastefnu á fjárfestingar og gjaldskrá
Landsnet leggur nú áherslu á að afla sem bestra upplýsinga um kostnað við lagningu jarðstrengja og meta áhrif þeirra á uppbyggingu meginflutningskerfisins. Var bæði leitað til innlendra og erlendra sérfræðinga og horft til reynslu nágrannaþjóða í Evrópu sem mótað hafa skýra stefnu í lagningu jarðstrengja, þó áherslurnar séu mismunandi. Hefur Landsnet m.a. greint kostnað við framkvæmdir næstu 10 árin miðað við óbreytta stefnu um loftlínur á hærri spennum annars vegar og hins vegar fyrirsjáanlegar kostnaðar- og gjaldskrárhækkanir ef farin yrði annaðhvort „dönsk“ eða „hollensk“ leið í lagningu jarðstrengja. Einnig var metinn kostnaður við „blandaða“ leið þar sem jarðstrengir væru 10% eða 20% línunnar og eru niðurstöðurnar eftirfarandi: |
Eftir að þessu 10 ára tímabili lýkur er viðbúið að gjaldskrá myndi hækka áfram þar sem áframhaldandi styrkingar verða nauðsynlegar í flutningskerfinu. Var bent á að danska leiðin væri vart fær hérlendis vegna kostnaðarauka og eðlis íslenska flutningskerfisins. Ef niðurstaða stjórnvalda yrði hins vegar sú að fara blandaða leið þyrfti jafnframt að marka skýrar reglur um hvar ætti að leggja jarðstrengi og hvar ekki.
Mat á umhverfisáhrifum og sýnileika
Vegna andstöðu ýmissa hagsmunaaðila hafa áform um styrkingu byggðalínuhringsins lítið þokast áfram. Því var sú ákvörðun tekin fyrr á árinu að flýta undirbúningi svokallaðrar norður-suðurtengingar yfir Sprengisand, m.a. til að mæta aukinni orkuþörf á Austur- og Norðurlandi. Í tengslum við þá úttekt, og vinnu við nýja kerfisáætlun Landnets, hefur farið farm umfangsmikil greining þar sem kemur m.a. fram að umhverfisáhrif norður-suðurtengingarinnar væru þess eðlis að báðir kostirnir komi til greina.Samhliða var unnin sýnileikagreining fyrir norður-suðurtenginguna út frá fyrirhugðu vegstæði nýrrar Sprengisandsleiðar og stillt upp fimm grunnvalkostum. Annars vegar bara loftlínu eða jarðstreng og hins vegar þremur blönduðum valkostum með mismunandi löngum jarðstrengjum, ásamt tilheyrandi útjöfnunarstöðvum sem verða að vera til staðar ef leggja á jarðstrengi á hærri spennum. Kostnaðaráhrif þessara mismunandi jarðstrengjavalkosta á gjaldskrá Landsnets voru einnig metin og eru niðurstöðurnar þessar:
|
Til að draga úr sýnileika háspennulína hefur Landsnet einnig látið hanna nýjar tegundir mastra og tengivirkja sem falla betur að íslensku umhverfi og lýst aðfeðrum sem hægt er að nota við að felli línurnar betur að landslaginu. Voru sýnd dæmi á fundinum um hvernig þessi mannvirki munu líta út.
Aðgengi að raforku háð búsetu
Ein afleiðing þess að ekki hefur verið hægt að fara í löngu tímabæra uppbyggingu á meginflutningskerfinu er að í dag búa landsmenn í raun við tvö raforkuflutningskerfi. Annars vegar sterkt kerfi á Suðvesturlandi og hins vegar veikt flutningskerfi annars staðar á landinu: Það hefur það í för með sér að aðgengi að öruggri raforku er háð búsetu því ekki er hægt að tryggja íbúum og fyrirtækjum landbyggðarinnar aðgang að öruggri raforku til jafns við íbúa þéttbýlisins á suðvesturhorninu. Þetta ástand er svipað því sem var um 1970, áður en byggðalínan kom til. Hefur þetta haft í för með sér margvíslega rekstrarerfiðleika og leitt til aukinna tjóna því kerfið getur síður tekist á við áföll. Fyrir vikið er hagkvæmni í rekstri þess minni með tilheyrandi auknum þjóðhagslegum kostnaði.Deilur um jarðstrengi eða loftlínur skýrir að hluta þann seinagang sem hefur verið ríkjandi í uppbyggingu meginflutningskerfisins en fyrirkomulag skipulagsmála hefur einnig áhrif. Sveitarfélög hafa í raun allt skipulagsvald í dag hvað varðar grunnkerfi landsins, s.s. vegi, raflínur og fjarskipti, en virðast hins vegar ekki hafa skyldur til að líta til heildarhagsmuna. Þessum málum er öðruvísi farið víða erlendis og voru stjórnvöld hvött til þess á fundinum að kynna sér það. Jafnframt kom fram sú von stjórnenda Landsnets að með breyttu og gagnsæju ferli við gerð kerfisáætlunar fyrirtækisins og innleiðingu 3ju tilskipunar ESB um raforkumarkaðinn myndi kerfisáætlunin öðlast formlega stöðu við gerð skipulagsáætlana ríkis og sveitarfélaga.
Afkoma Landsnets
Rúmlega tveggja milljarða króna hagnaður var af starfsemi Landsnets árið 2013. Fram kom á fundinum að lagabreytingar sem gerðar voru árið 2010 og áttu að auka hagræðingu í rekstri fyrirtækisins hefðu ekki enn skilað sér. Ákvörðun um tekjumörk fyrir árin 2011-2015 liggi ekki enn fyrir vegna kæruferla og þ.a.l. liggi ákvörðun um arðsemi og tekjumörk ekki enn fyrir, rúmum þremur árum eftir gildistöku laganna. Var því beint til stjórnvalda að taka til endurskoðunar ákvæði sem varða úrskurði og kærur þannig að eðlilegt umhverfi verði skapað fyrir rekstur Landsnets.
Nánari upplýsingar veita:
Geir A. Gunnlaugsson, stjórnarformaður Landsnets, sími 892 8040.
Þórður Guðmundsson, forstjóri Landsnets, sími 893 5621.