Kolefnisspor íslenska raforkuflutningskerfisins er 0,87 g CO2-ígildi á hverja flutta kWst. Þetta er niðurstaða vistferilsgreiningar sem unnin var af verkfræðistofunni EFLU fyrir Landsnet. Af þessum 0,87 grömmum er tæplega helmingur tilkomin vegna framleiðslu á orku sem tapast í flutningskerfinu.
Næststærsti hluti kolefnissporsins er losun SF6 í tengivirkjum, sem myndar um 15% kolefnissporsins, eða 0,13 g CO2-ígildi á á hverja flutta kWst. Önnur losun er tilkomin vegna innviðanna sem mynda flutningskerfið og eiga leiðarar þar stærsta hlutdeild eða tæp 13%. Aðrir innviðir sem valda töluverðum hluta heildarlosunar gróðurhúsaloftegunda eru möstur og tengivirki.
Niðurstöður vistferilsgreiningarinnar má finna í skýrslu sem nú hefur verið birt á heimasíðu EFLU. Markmið með greiningunni var að greina og meta umhverfisáhrif raforkuflutnings í flutningskerfi Landsnets með aðferðafræði vistferilsgreiningar. Greiningin er byggð á öllum flutningslínum Landsnets sem eru reknar á 66 kV, 132 kV og 220 kV spennu. Heildarlengd lína í flutningskerfi Landsnets eru yfir 3.300 km og þar af eru jarðstrengir um 245 km að lengd. Heildarflutningur um kerfið er á milli 17 og 18 TWst árlega og fer vaxandi.
Gagnsæjar og tölulegar upplýsingar um umhverfisáhrif.
Vistferilsgreining (e. Life cycle assessment, LCA) er aðferðafræði til þess að meta umhverfisáhrif vöru eða þjónustu frá vöggu til grafar. Vistferilsgreiningin er unnin í samræmi við alþjóðlegu staðlana ISO 14040 og ISO 14044 og því má nýta niðurstöður til samanburðar við sambærileg kerfi, vöru eða þjónustu. Það getur t.d. komið sér vel fyrir íslensk fyrirtæki sem láta framkvæma vistferilsgreiningar á sínum framleiðsluvörum. Niðurstöðurnar er hægt að nýta m.a. til að átta sig á grunnstöðu umhverfisáhrifa, í vistvænni hönnun, við markmiðasetningu í rekstri eða til að sækja um umhverfisvottanir.
Í greiningunni voru einnig greind önnur umhverfisáhrif en þau sem snúa að losun gróðurhúsalofttegund, en áhrifunum var skipt í 10 meginflokka: gróðurhúsaáhrif, eyðing ósonlagsins, svifryk, myndun ósons við yfirborð jarðar, súrt regn, næringaefnaauðgun, visteiturhrif, eituráhrif á fólk, eyðing auðlinda og jónandi geislun. Með greiningunni er, auk þess að meta kolefnisspor raforkuflutningsins, auðkennt hvar í vistferli flutningskerfisins greina megi mestu áhrifin í hverjum umhverfisáhrifaflokki og hvernig umhverfisáhrif verða til á hverjum stað í vistferlinum.
Við hvetjum alla áhugasama að kynna sér efni skýrslunnar sem hægt er að nálgast hér.