Landsnet efnir til kynningarfundar um kerfisáætlun 2014-2023 og drög að umhverfisskýrslu kerfisáætlunarinnar að morgni þriðjudagsins 6. maí nk. í höfuðstöðvum fyrirtækisins í Reykjavík. Áhugasamir geta einnig fylgst með fundinum í beinni útsendingu á heimasíðu Landsnets.
Gerð verður grein fyrir helstu niðurstöðum nýrrar kerfisáætlunar Landsnets en henni er nú sem fyrr ætlað að spá fyrir um nauðsynlega uppbyggingu flutningskerfis raforku á Íslandi. Megininntak áætlunarinnar að þessu sinni er greining á flutningsþörf meginflutningskerfisins til næstu 10 ára og samanburður á loftlínum og jarðstrengjum.Á fundinum verður einnig verður fjallað um drög að umhverfisskýrslu kerfisáætlunarinnar en þetta er í fyrsta sinn sem kerfisáætlun Landsnets fylgir slíku ferli, í kjölfar úrskurðar umhverfis- og auðlindaráðherra þar um frá 21. maí 2013. Gerð verður grein fyrir forsendum og nálgun matsvinnunnar, samanburði á umhverfisáhrifum valkosta, mótvægisaðgerðum og niðurstöðum matsins.
Allir velkomnir – bein útsending á vef Landsnets
Allir eru velkomnir á kynningarfundinn sem fer fram að Gylfaflöt 9 í Grafarvogi, þriðjudaginn 6. maí og hefst hann stundvíslega kl. 9. Þeir sem komast ekki á fundinn geta fylgst með beinni útsendingu frá honum á heimasíðu Landsnets, www.landsnet.is.
Kerfisáætlunin og drög að umhverfisskýrslu kerfisáætlunarinnar verða aðgengileg á heimasíðu Landsnets og á vef Skipulagsstofnunar þriðjudaginn 6. maí 2014