Um 300 manns tóku á einn eða annan hátt þátt í neyðaræfingu þar sem æfð voru viðbrögð vegna stórfellds eldgoss í Vatnajökli sem stöðvaði raforkuframleiðslu og –flutninga frá Þjórsársvæðinu og olli alvarlegum raforkuskorti á landinu, aðallega á Suðvestur- og Vesturlandi.
Flest fyrirtæki og stofnanir sem eiga aðild að Neyðarsamstarfi raforkukerfisins (NSR) tóku þátt í æfingu 1311 og var í mörg horn að líta - enda staðan orðin grafalvarleg þegar leið á gærdaginn. Suðurland var þá orðið rafmagnslaust og grípa þurfti til mikilla skerðinga á afhendingu orku til viðskiptavina, jafnframt því sem reynt var að halda virkjunum á svæðinu gangandi og koma á bráðabirgðatengingum þó svo flóð vegna gossins hefðu skolað í burtu hluta flutningsmannvirkja á svæðinu.
Til að auka enn frekar á raungildi æfingarinnar var sérstök fréttastofa starfrækt í höfuðstöðvum Landsnets. Bæði þar og á vettvangi voru talsmenn viðkomandi fyrirtækja teknir í viðtöl um gang mála, fylgst með framvindu æfingarinnar og kastað fram nýjum áskorunum fyrir þátttakendur, þegar handritshöfundum æfingarinnar þótti sem þeir hefðu ekki í nægu að snúast!
Almennt voru fulltrúar þeirra fyrirtækja og stofnana sem þátt tóku í æfingunni í gær ánægðir og töldu hana hafa verið mjög gagnlega. Ýmsir veikleikar í viðbragðsáætlun hefurðu uppgötvast sem taka þurfi á og skerpa á ýmsum grundvallarreglum um hvernig haga skuli viðbrögðum – ef til þess kæmi að kljást þyrfti við aðstæður af þessu tagi í raun og veru. Næst á döfinni er að greina niðurstöður æfingarinnar og þær verða síðan nýttar til að endurbæta viðbragðsáætlanir, bæði Landsnets og annarra fyrirtækja og stofnana sem voru þátttakendur í æfingunni.