Við lagningu Fitjalínu 2, 132 kílóvolta (kV) jarðstrengs milli Fitja og Helguvíkur, sem staðið hefur yfir í sumar var í fyrsta sinn notast við sérstakan strenglagningarbúnað sem Landsnet festi kaup á í vor vegna fyrirsjáanlegrar aukningar í lagningu jarðstrengja á vegum fyrirtækisins.
Um er að ræða sérhannaðan vagn fyrir risakefli með strengefni og allskyns búnað sem reynst hefur vel við lagningu Fitjalínustrengsins. Þeirri vinnu er nýlokið og stendur nú yfir frágangur á tengingum á strengnum og frágangsvinna á framkvæmdasvæðinu. Samhliða strenglagningunni er nýtt tengivirki Landsnets, Stakkur, í byggingu í Helguvík. Þeim framkvæmdum miðar einnig vel og á að vera lokið fyrir áramót.
Jarðstrengurinn milli Fitja og Helguvíkur er alls um 8.5 km langur og liggur hann að hluta til innan flugvallarsvæðisins áður en hann þverar Reykjanesbrautina í áttina til Helguvíkur. Framkvæmdir við slóðagerð og skurðgröft hófust í maíbyrjun og í byrjun júlí voru 18 risakefli með strengefninu, sem hvert um sig vó 1,7 tonn, flutt á svæðið. Í framhaldi af því hófst útlagning strengsins og voru aðstæður við lagningu hans um margt krefjandi. Má þar t.d. nefna vinnu við þveranir undir vegi ásamt meiri klapparvinnu við skurðgröft en reiknað hafði verið með.
Bygging tengivirkisins og lagning jarðstrengsins eru liðir í að uppfylla samning Landsnets um flutning raforku til kísilvers United Silicon sem verið er að reisa í Helguvík og kveður á um að tengingin verði tilbúin 1. febrúar 2016.
Lagning jarðstrengs milli Fitja og Helguvíkur-videó
Myndir frá lagningu Fitjalínu 2.