Lagningu sæstrengs til Vestmannaeyja lokið


15.07.2013

Framkvæmd

Lagningu Vestmannaeyjastrengs 3, tæplega 13 kílómetra langs sæstrengs milli lands og Eyja, lauk síðdegis föstudaginn 12. júlí eftir fjögurra daga snarpa vinnutörn. Stefnt er að því að ljúka lagningu jarðstrengja að sæstrengnum á Landeyjasandi og í Vestmannaeyjum á næstu vikum og standa vonir til þess að tengivinnu verði lokið í ágústmánuði.

Fresta varð lagningu sæstrengsins í byrjun júlí vegna slæmra veðurhorfa en þriðjudaginn 9. júlí var hafist handa að nýju og byrjað á því að koma strengnum á land í Landeyjafjöru úr kapalskipinu Pleijel. Tók það hátt í sólarhring og reyndist erfiðara en ráð hafði verið fyrir gert vegna hliðarstrauma og brims. Meðal annars hvolfi bát í fjöruborðinu í þeim atgangi og var einn maður sendur á sjúkrahús til aðhlynningar en hann reyndist sem betur fer ómeiddur. 

 
Útlagning sæstrengsins hófst miðvikudaginn10. júlí og gekk nokkuð vel. Fjarstýrður kafbátur var notaður til að leggja niður strenginn samkvæmt fyrirfram ákveðinni leið og er það mál manna sem að komu að vel hafi tekist til. Mestu hindranirnar á botninum voru næst Eyjum en þangað var skipið komið snemma morguns föstudaginn 12. júlí. Landataka sæstrengsins á Heimaey fór svo fram eftir hádegi á föstudeginum. Var strengurinn dreginn á flotholtum með handafli upp í fjöruna og gekk það vel í alla staði, enda aðstæður góðar bæði varðandi veður og sjólag. Strax var hafist handa við frágang á kaplinum og um helgina var viðhalds og viðgerðarefni tekið á land í Eyjum úr kapalskipinu. Það er nú farið frá Vestmannaeyjum, heim á leið.

Áætlað að tengivinnu ljúki í ágúst

Næst liggur fyrir að klára lagningu jarðstrengja bæði á Landeyjasandi og í Eyjum og ganga frá tengingum. Vonir standa til þess að vinnu við lagningu jarðstrengjanna ljúki á næstu vikum en strengurinn frá Landeyjafjöru að spennistöð við Rimakot er um 3,5 km og strengurinn úr Gjábakkafjöru á Heimaey að tengivirki Landsnets í Eyjum er um kílómetri að lengd. Þegar því er lokið er hægt að tengja saman jarðstrengina og sæstrenginn og er stefnt að því að þeirri vinnu ljúki í ágústmánuði. 

Þetta er þriðji sæstrengurinn sem lagður er til Vestmannaeyja og leysir hann af hólmi Vestmannaeyjastreng 2 sem er illa farinn og ótraustur. Til að byrja með verður nýi strengurinn tengdur á 33 kV spennu en hann getur flutt allt að 66 kV spennu og því mögulegt að auka rafmagnsflutninga töluvert til Eyja þegar úrbætur hafa verið gerið á spennivirkjum í Eyjum og við Rimakot.

Áætlaður heildarkostnaður Landsnets við lagningu Vestmannaeyjastrengs 3 er um 1,6 milljarðar króna.

Aftur í allar fréttir