Landsnet hefur gengið til liðs við Festu, miðstöð um samfélagsábyrgð sem samanstendur af hópi fjölmargra íslenskra fyrirtækja sem vilja leitast við að skipuleggja starfsemi sína þannig að hún hafi jákvæð áhrif á þróun samfélagsins.
„Það er mikilvægt að sem mest sátt ríki í samfélaginu um hlutverk Landsnets og áherslur og að skilningur sé fyrir hendi á mikilvægi flutningskerfis raforku sem hluta af innviðum samfélagsins. Við viljum kappkosta að ná fram þessari sátt og þar er samfélagsábyrgð, samtvinnuð stefnu fyrirtækisins, mikilvæg,“ segir Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets.
Landsnet er í hópi 103 íslenskra fyrirtækja sem skrifuðu undir yfirlýsingu um markmiðssetningu í loftslagsmálum í aðdraganda loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í París. Með aðild að Festu tekur Landsnet þátt í mótun samfélagsábyrgðar á Íslandi, fær aðgang að tengslaneti Festu og hagnýtri þekkingu og rannsóknum á sviði samfélagsábyrgðar.
„Það er mikið ánægjuefni að fá Landsnet til liðs við Festu, þekkingarmiðstöð um samfélagsábyrgð fyrirtækja á Íslandi, og þau fjölmörgu fyrirtæki sem gengið hafa til samstarfs við okkur. Þau eru nú á sjöunda tug talsins en í sinni einföldustu mynd felst samfélagsleg ábyrgð fyrirtækja og stofnana í því að þau axli ábyrgð á þeim áhrifum sem þau hafa á fólk og umhverfi,“ segir Ketill B. Magnússon, framkvæmdastjóri Festu.
Um LandsnetLandsnet annast flutning raforku á Íslandi og stýrir uppbyggingu flutningskerfisins. Landsnet stýrir jafnframt raforkukerfi landsins og tengir þannig saman framleiðendur og notendur raforku. Landsnet leggur ríka áherslu á þjónustuhugsun og að vera öflugur og eftirsóknarverður vinnustaður þar sem umhyggja fyrir þörfum viðskiptavina og starfsfólks er í fyrirrúmi.
Um Festu
Festa, miðstöð um samfélagsábyrgð var stofnuð í október 2011. Markmið með stofnun miðstöðvarinnar er að leita bestu aðferða fyrir fyrirtæki við innleiðingu á stefnu um samfélagsábyrgð, stuðla að vitundarvakningu um samfélagsábyrgð fyrirtækja og hvetja til rannsókna á viðfangsefninu í samstarfi við háskólasamfélagið.
Mynd: Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets, og Ketill B. Magnússon, framkvæmdastjóri Festu, handsala samkomulag um þátttöku Landsnets í starfsemi Festu, miðstöðvar um samfélagsábyrgð.