„Landsnet hefur beðið eftir stefnumótun stjórnvalda í þessum málum í um sjö ár og það er von okkar að þetta nái fram að ganga,“ segir Þórður Guðmundsson, forstjóri Landsnets, um drög að tillögu til þingsályktunar um stefnu stjórnvalda í lagningu raflína, sem nú liggur frammi til umsagnar á heimasíðu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins. Þar eru sett fram viðmið og meginreglur sem leggja beri til grundvallar við uppbyggingu á dreifi- og flutningskerfi raforku, m.a. að því er varðar álitamál um hvenær skuli leggja raflínur í jörð og hvenær skuli reisa loftlínur.
Iðnaðar- og viðskiptaráðherra hyggst á komandi haustþingi leggja fram umrædda þingsályktunartillögu um stefnu stjórnvalda um lagningu raflína og fagnar forstjóri Landsnets því að fá skýrar leikreglur um hvernig fyrirtækið skuli bera sig að í þessum efnum. Samhliða þingsályktunartillögunni verður lagt fram frumvarp til laga um breytingu á raforkulögum nr. 65/2003, þar sem kveðið verður með ítarlegum hætti á um hvernig standa skuli að gerð kerfisáætlunar um uppbyggingu flutningskerfis raforku, en drög að því voru lögð fram til umsagnar fyrr í sumar.Viðmið varðandi lagningu raflína
Dreifi- og flutningskerfi raforku er skipt í þrjá kerfishluta samkvæmt þingsályktunardrögunum og skal meginreglan í lágspenntu dreifikerfi raforku, þ.e. á lægri spennu en 1 kílóvolt (kV), vera sú að notast við jarðstrengi við lagningu raflína eða endurnýjun eldri lagna. Sama gildir um landshlutakerfi raforku, sem flytur orku innan landshluta frá meginflutningskerfinu til lágspennta dreifikerfisins eða beint til notenda. Þar skal að jafnaði notast við jarðstrengi, bæði til nýlagna og endurnýjunar eldri lagna, að því gefnu að það sé tæknilega raunhæft og kostnaður við slíka lausn sé ekki meira en tvöfaldur kostnaður loftlínu. Í undantekningartilvikum skal vera heimilt að víkja frá þessari reglu, t.d. ef í umhverfismati kemur fram að loftlína sé talin betri kostur út frá umhverfissjónarmiðum. Sömu rök gilda um notkun loftlína í lágspennta dreifikerfinu.
Í meginflutningskerfi raforku sem flytur orku á milli landshluta skal meginreglan vera sú að notast við loftlínur, nema annað teljist hagkvæmara eða æskilegra, m.a. út frá tæknilegum atriðum eða umhverfis- eða öryggissjónarmiðum. Skal meta í hverju tilviki fyrir sig hvort rétt sé að nota jarðstrengi á viðkomandi línuleið, eða afmörkuðum köflum hennar, á grundvelli eftirtalinna viðmiða sem réttlæta þá val á dýrari kosti:
- Ef línuleið er innan skilgreinds þéttbýlis þar sem búa fleiri en 200 íbúar.
- Ef línuleið er innan friðlands sem verndað er sökum sérstaks landslags, sbr. 53. gr. laga nr. 44/1999, um náttúruvernd.
- Ef línuleið er innan þjóðgarðs.
- Ef línuleið er innan friðlands sem verndað er af öðrum sökum en sérstaks landslags, sbr. 53. gr. laga nr. 44/1999, um náttúruvernd.
- Ef um sérstök öryggissjónarmið er að ræða, eins og t.d. flugöryggi í nálægð við flugvelli eða bætt afhendingaröryggi raforku.
Markmið til framtíðar um hlutfall jarðstrengja og afnám vörugjalda
Í þingsályktunartillögunni er lagt til að sett verði framtíðarmarkmið um hlutfall jarðstrengja í flutningskerfi raforku. Þannig er lagt til að árið 2020 verði hlutfallið orðið a.m.k. 50% af lengd raflína, 65% árið 2025 og 80% tíu árum síðar, árið 2035. Náist þessi markmið ekki skal endurskoða þingsályktunartillöguna.
Einnig er lagt til að Alþingi álykti að sett verði lög sem afnemi það misræmi sem nú er á vörugjöldum af jarðstrengjum og loftlínum, þannig að tryggt sé að slíkir þættir hafi ekki áhrif á leiðir sem valdar eru við útfærslu framkvæmda í flutningskerfi raforku. Jafnframt er lagt til að þingið álykti um frekari rannsóknir á þjóðhagslegri hagkvæmni þess að auka hlutfall jarðstrengja í flutningskerfinu, m.t.t. raforkuverðs til heimila og atvinnulífs, atvinnuöryggis, byggðaþróunar, tæknilegra lausna og umhverfiskostnaðar. Skal endurskoða og uppfæra stefnu stjórnvalda um lagningu raforkulína, eftir því sem niðurstöður umræddra rannsókna gefi tilefni til.
Samkvæmt þingsályktunartillögunni skal einnig almennt hafa eftirfarandi sjónarmið að leiðarljósi við uppbyggingu dreifi- og flutningskerfis raforku:
- Við val á línuleið fyrir raflínur skal forðast eins og kostur er röskun friðlýstra svæða og svæða sem njóta sérstakrar verndar, skv. 37. gr. laga nr. 44/1999 um náttúruvernd.
- Leita skal leiða til að draga úr sjónrænum áhrifum með þróun nýrra flutningsmannvirkja sem falla betur að umhverfinu og velja stæði þannig að sjónræn, eða önnur umhverfisáhrif séu sem minnst .
- Leitast skal við að halda línugötum í lágmarki og raska ekki ósnortnu svæði ef aðrar lausnir koma til greina, m.a. með tilliti til kostnaðar og umhverfisáhrifa.
- Jarðstrengi skal svo sem kostur er leggja meðfram vegum.
- Nýta skal núverandi línustæði við lausnir á aukinni flutningsgetu ef aðstæður leyfa, með spennuhækkun, fjölgun eða stækkun leiðara á línum eða öðrum þekktum aðferðum.
- Afhendingaröryggi skal metið samhliða sem og kostnaður við að tryggja það.
- Horfa skal til styrkingar og uppbyggingar raforkukerfisins með tilliti til þarfa allra landsmanna.
- Tryggja skal að flutningstakmarkanir hafi ekki áhrif á aðgengi og að horft verði til viðskiptahagsmuna.
- Tryggja skal, eins og kostur er, hagkvæmt flutnings- og dreifiverð til raforkukaupenda.
Drög að tillögu til þingsályktunar um stefnu stjórnvalda um lagningu raflína og greinargerð
Mismunandi stefnur nágrannaþjóða varðandi raflínur í jörð og loftlínur (samantekt úr greinagerð með þingsályktunartillögunni)