Landsnet vinnur nú eftir viðbragðsáætlun vegna veðurútlits á vestanverðu landinu í dag. Spáð er aftakaveðri í kvöld, með hættu á seltu og krapa, sem auka líkur á truflunum í flutningskerfinu með hættu á straumleysi.
Mestar líkur eru á truflunum þar sem veðrið verður verst á vestanverðu landinu og ekki er hægt að útiloka truflanir víðar um land.
Allir vinnuflokkar Landsnets eru í viðbragðsstöðu og í undirbúningi er að manna helstu tengivirki á vestan- og norðanverðu landinu. Landsnet undirbýr einnig aðrar ráðstafanir, svo sem að jafna orkuflutning milli landshluta og lækka spennu til að draga úr líkum á yfirslætti í tengivirkjum og minnka þannig afleiðingar hugsanlegra truflana.
Vegna ástands flutningskerfisins eru viðbragðsáætlanir Landsnets viðamiklar, en flutningskerfi rafmagns, að Suðvesturhluta landsins undanskildu, er takmörkunum háð og tenging milli landsvæða um byggðalínu er mjög veik.