Landsnet kærir ákvörðun Skipulagsstofnunar um Kröflulínu 3


06.09.2013

Landsnet hefur sent úrskurðanefnd umhverfis- og auðlindamála kæru vegna ákvörðunar Skipulagsstofnunar frá 9. ágúst 2013 um tillögu að matsáætlun Kröflulínu 3, nýrrar 220 kV háspennulínu frá tengivirki við Kröflustöð að tengivirki við Fljótsdalsstöð.

Skipulagsstofnun féllst á tillögu að matsáætlun vegna Kröflulínu 3 með viðbótum frá Landsneti, sem settar voru fram í júní, júlí og ágúst í sumar, og með athugasemdum í 12 liðum sem Skipulagsstofnun gerði grein fyrir í ákvörðun sinni. 

Að lokinni ýtarlegri skoðun getur Landsnet fallist á níu af athugasemdum Skipulagsstofnunar en hins vegar er talið nauðsynlegt að leita álits úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála vegna þriggja athugasemda stofnunarinnar – svo skýr svör og útskýringar liggi fyrir um umrædda efnisþætti áður en lagt verður upp í kostnaðarsamt og umfangsmikið matsferli. Óskýr tilmæli gætu reynst dýrkeypt á síðari stigum matsvinnunnar og því leitar Landsnet til úrskurðarnefndarinnar, eins og lög gera ráð fyrir.

Krafist er niðurfellingar þriggja af 12 athugasemdum Skipulagsstofnunar við tillöguna en til vara að staðfest verði af hálfu úrskurðarnefndarinnar að umfjöllun í umræddum liðum ákvörðunar stofnunarinnar teljist ekki vera athugasemdir – heldur hluti matsáætlunar í skilningi 3. málsl. 2. mgr. 8. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum. 

Að mati Landsnets fer Skipulagsstofnun út fyrir valdheimildir sínar og verksvið samkvæmt lögum með því að gera athugasemdir við atriði sem heyri lögum samkvæmt ekki undir stofnunina, heldur önnur stjórnvöld, þ.e. Orkustofnun. Að mati Landsnets er afar mikilvægt að hlutverk þessara stofnana sé skýrt. Þá hafi hinir kærðu liðir að geyma mjög íþyngjandi ákvarðanir fyrir Landsnet, sem fyrirtækið telji ekki vera í samræmi við tilgang og markmið laga. Athugasemd Skipulagsstofnunar um að horfa beri til niðurstöðu jarðstrengjanefndar standist t.d. ekki lög að mati Landsnets. Tillögur jarðstrengjanefndar Alþingis hafi hvorki hlotið formlega stöðu sem réttarheimild né geti þær innihaldslega talist viðmið sem horfa beri til. Stjórnvöld hafi málið til meðferðar og eðlilegt að bíða niðurstöðu þeirra.

Kæra Landsnets var send úrskurðarnefndinni í dag en áskilinn er réttur til að fjalla frekar um hina kærðu ákvörðun og einstaka þætti hennar á síðari stigum. Samkvæmt lögum um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála skal nefndin kveða upp úrskurð eins fljótt og kostur er og jafnan innan þriggja mánaða frá því að málsgögn bárust frá stjórnvaldi, sbr. 5. mgr., en innan sex mánaða frá sama tímamarki sé mál viðamikið.

Stjórnsýslukæra vegna Kröflulínu 3

Aftur í allar fréttir