Landsnet kaupir rafmagn vegna flutningstapa


29.05.2017

Framkvæmd

Landsnet hefur samið við HS Orku, Landsvirkjun, Orku náttúrunnar og Íslenska Orkumiðlun um kaup á rúmum 89 gígavattstundum (GWst) af rafmagni til að mæta flutningstapi í raforkukerfinu á næsta ársfjórðungi.

Boðnar voru út rúmar 98 GWst sem er álíka magn og á sama tíma í fyrra. Heildarkostnaður Landsnets vegna kaupa á orkunni sem gengið var frá við orkusölufyrirtækin fjögur er ríflega 288 milljónir króna. Hækkunin er 5% milli ára en meðalverðið á kílóvattstund (kWst) í útboðinu nú var 3,17 krónur samanborið við 3,02 krónur á kWst á sama tíma árið 2016. Aldrei áður hafa jafnmargir raforkusalar tekið þátt í útboðinu, alls fimm talsins.

Flutningstöp er sú raforka sem tapast í flutningskerfinu vegna viðnáms í flutningslínum og spennum. Hlutfall tapa af afhentri raforku frá flutningskerfinu var 2,0% árið 2016, eða 360 GWst, og samsvarar það raforkunotkun um 75.000 heimila sem ekki eru rafhituð.

Rafrænt innkaupaferli, aukið gagnsæi

Opinn samningur um innkaup á raforku vegna tapa í flutningi raforku var boðinn út fyrr á árinu. Raforka vegna flutningstapa verður nú boðin út fjórum sinnum á ári í lokuðu útboði innan samningsins og er ástæðan m.a. betri endurgjöf á verði til markaðsaðila og gögn eru nær rauntíma við áætlunargerð enn áður. Með því verður hagkvæmni og skilvirkni innkaupanna aukin. Sjá nánar hér.

Næsta lokaða útboð er fyrir síðasta ársfjórðung þessa árs og verður sent út með góðu fyrirvara, innan samningsins, síðari hluta sumars.

Kerfisstyrking myndi bæta orkunýtingu

Töp í flutningskerfi Landsnets hafa farið vaxandi á undanförnum árum. Helsta ástæðan fyrir þeirri þróun er að flutningur eftir byggðalínunni hefur verið í eða yfir flutningsmörkum. Slíkt ástand leiðir til þess að hærra hlutfall af orku tapast þar heldur en í þeim hlutum flutningskerfisins þar sem flutningsálagið er minna. Styrking flutningskerfisins mun leiða til ábyrgari meðferðar orkunnar, betri orkunýtingar og þar með bæta orkumarkað. Styrkingin ætti einnig að minnka kolefnisspor Landsnets því flutningstöp valda töluverðri óbeinni losun gróðurhúsalofttegunda hjá fyrirtækinu.

Aftur í allar fréttir